Tvískipt veður um páskana

Mikið bjartviðri hefur verið í höfuðborginni síðustu daga þrátt fyrir …
Mikið bjartviðri hefur verið í höfuðborginni síðustu daga þrátt fyrir kulda. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Sólskin og tuttugu stiga hiti,“ segir veðurfræðingur Veðurstofunnar, Þorsteinn V. Jónsson, þegar hann er inntur eftir páskaveðrinu og blaðamanni mbl.is er skapi næst að láta þar við sitja. Slíkt draumaveður er þó því miður ekki í kortunum en spáin hefur svo sannarlega oft verið verri og raunar hlýnar nokkuð á norðausturlandi.

„Leiðinlegasta veðrið er eiginlega á morgun. Þá fer að snjóa hérna sunnanlands, það verður hvassviðri og snjókoma sem mun standa alveg fram á föstudaginn langa,“ segir Þorsteinn sem kveður veðrið munu þróast yfir í rigningu og slyddu á föstudag. Hann segir að úrkomulaust verði norðan og austanlands en að á föstudaginn langa muni þó verða þar einhver snjómugga.

„Á laugardaginn fer að létta til á norður og austurlandi með svolítið stífum suðvestlægum áttum á köflum. Það þýðir rigningu hér sunnanlands og vestanlands öðru hvoru en bjart á norður- og austurlandi. Þetta verður sumsé nokkuð tvískipt páskaveður.“ segir Þorsteinn. Hann segir að sunnan- og suðvestanáttir muni fara um landið frá laugardegi til þriðjudags með 8 til 15 m/sek. Þá segir hann að hlýna muni í veðri og að hiti á norðaustanverðurlandinu muni verða um og yfir 10 stig.

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður fer fram á Ísafirði um helgina og má því gera ráð fyrir að margir muni gera sér ferð vestur um páskana. Þorsteinn segir að nokkuð hvasst eigi að vera á Vestfjörðum og leiðindaveður aðra nótt. „Á miðnætti á fimmtudagskvöldið kemur inn allhvöss austanátt með snjókomu og það mun snjóa nokkuð á föstudaginn langa. Eftir það snýst þetta upp í suðvestanátt með rigningu eða slyddu. En það verður býsna hvasst alla helgina.“

Hann segir ferðaveður eiga að vera þolanlegt um helgina en líklega verst á morgun þar sem snjóa á sunnanlands seinni partinn. Hann segir að nokkuð blint gæti orðið á Hellisheiði og því er um að gera að fylgjast vel með veðri og færð hyggi maður á ferðalög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert