Verða með skemmtiþætti á mbl.is

Þeir Arnar Þór, Róbert, Ragnar, Egill og Nökkvi Fjalar skrifuðu …
Þeir Arnar Þór, Róbert, Ragnar, Egill og Nökkvi Fjalar skrifuðu undir samning við Árvakur í dag. Hér eru þeir með Haraldi Johannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Félagarnir Nökkvi Fjalar Orrason, Egill Ploder Ottósson og Róbert Úlfarsson sem stjórnað hafa sjónvarpsþáttunum Áttunni, skrifuðu í dag undir samning við Árvakur um útgáfu þáttanna á mbl.is.

Munu þeir færa út kvíarnar og hafa fengið til liðs við sig þá Arnar Þór Ólafsson og Ragnar Jónsson, sem þeir unnu með við útgáfu skemmtiþáttanna 12:00 í Verzlunarskóla Íslands.

Fyrsti þátturinn kemur út sunnudaginn 12. apríl nk. og verður þrjátíu mínútur að lengd. Eftir það munu þættirnir koma út vikulega á sunnudögum. „Við erum að stækka við okkur, lengja þættina og auka framleiðsluna svo þættirnir verða fjölbreyttari,“ útskýrir Nökkvi.

Þáttunum svipar til sjónvarpsþáttanna 70 mínútna og eru byggðir upp á spjalli og sprelli í setti í bland við innslög á borð við falda myndavél og aðra hrekki. „Þetta er stundum vitleysa, en samt skemmtileg vitleysa,“ segir Egill og bætir við að þátturinn hafi enga uppskrift og engin mörk.

Félagarnir segjast hafa verið lánsamir með þann stökkpall sem 12:00 í Verzlunarskólanum er, og þeir vilji gefa öllum færi á því að fá þau tækifæri sem þeir fengu. „Framtíðarmarkmiðið með þættinum er að koma öðrum inn og leyfa ungu fólki að spreyta sig,“ útskýrir Nökkvi. „Við viljum að þátturinn okkar verði stökkpallur fyrir alla.“

En hverju mega áhorfendur eiga von á? „Þetta verður mjög lifandi efni,“ segir Nökkvi og heldur áfram: „Við byrjum sterkir með lagi í fyrsta þættinum, í bland við leikið efni, sketsa, faldar myndavélar og fleira.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert