„Páskahret“ gengur yfir í dag

Spáð er vaxandi austanátt og slyddu eða snjókomu sunnanlands síðdegis.
Spáð er vaxandi austanátt og slyddu eða snjókomu sunnanlands síðdegis. mbl.is/Golli

Veðurstofan varar ökumenn við því að akstursskilyrði kunni að verða erfið og skyggni takmarkað á Hellisheiði og í Þrengslum síðdegis í dag og í kvöld.

Spáð er vaxandi austanátt og slyddu eða snjókomu sunnanlands síðdegis í dag. Hvassast við ströndina. Á morgun hlýnar og við það breytist úrkoman í slyddu eða rigningu og dregur úr vindi.

Hægara verður norðanlands í dag og bjartviðri en hvessir og þykknar upp með kvöldinu. Snjókoma verður norðanlands og austan á morgun. Veðurfræðingur býst við að það fari að létta til á Norður- og Austurlandi á laugardag en með stífum suðvestlægum áttum. Búast má við rigningu sunnanlands og vestan. Svipað veðurlag verður fram yfir helgi.

Hálka er á vegum um meginhluta landsins og sumstaðar éljagangur og skafrenningur.

Háspenna – hætta

Landsnet sendi í gær frá sér viðvörun vegna ferða um hálendið. Vegna mikilla snjóalaga á hálendinu er nú hættulega stutt upp í háspennulínur.

Sérstaklega er vakin athygli á stöðu mála að Fjallabaki þar sem mikil snjóalög eru við Sigöldulínu 4. Ekki hefur verið gripið til sérstakra merkinga þar en útivistarfólk er beðið um að fara með gát.

Þá áréttar Landsnet að háspennulínur sjást ekki alltaf vegna snjóa og slæms skyggnis. Í miklu fannfergi minnkar bil frá jörðu auk þess sem línur geta sigið vegna ísingar. Við verstu aðstæður geta leiðarar verið á kafi í snjó og lífsnauðsynlegt að gæta ýtrustu varúðar. Allir sem ætla á fjöll eru því hvattir til að fara með mikilli gát. helgi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert