Hálkublettir víða á Suðurlandi

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Þorvaldur Örn

Hálkublettir eru enn víða á vegum landsins, þrátt fyrir að færðin sé ekki lengur eins slæm og hún var síðdegis í dag. Þá hefur dregið úr vindi í kvöld, eins og gert hafði verið ráð fyrir, en búast má við snjókomu eða slyddu um tíma sunnantil á landinu í nótt.

Hálkublettir eru nokkuð víða á Suðurlandi en hálka á Mosfellsheiði og á nokkrum leiðum í uppsveitum, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Um landið vestanvert er víða hálka, hálkublettir og éljagangur á Snæfellsnesi. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiðinni og Bröttubrekku.

Nú er búið að opna Steingrímsfjarðarheiði en þar er snjóþekja og skafrenningur. Snjóþekja eða hálka er á flestum öðrum leiðum á Vestfjörðum og skafrenningur á fjallvegum.

Á Norðurlandi vestra er víða greiðfært á láglendi en hálka eða hálkublettir á fjallvegum. Öxnadalsheiði er nú ófær en þar er stórhríð.

Snjóþekja og éljagangur er í Víkurskarði og hálka eða snjóþekja austur að Mývatni en annars eru vegir um Norðurland eystra og á Austfjörðum að mestu auðir. Suðausturströndin er einnig nánast auð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert