Íslendingar á leið til Jemen

Frá Jemen. Myndin er úr safni.
Frá Jemen. Myndin er úr safni. AFP

Tveir sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi, Elín Jakobína Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur og Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir, eru á leið til Jemen til að sinna stríðssærðum.  Þau verða í skurðlæknateymum Alþjóða Rauða krossins (ICRC) en í hverju slíku teymi eru skurðlæknir, svæfingalæknir og hjúkrunarfræðingur.

Rauði krossinn á Íslandi brást við neyðarkalli Alþjóða Rauða krossins sem kom í kjölfar loftárása á Jemen sem hófust 25. mars síðastliðinn. Síðan þá hafa yfir 300 fallið, þar af yfir 200 óbreyttir borgarar. Þúsundir hafa særst og eru margar borgir án vatns og rafmagns.

Í fréttatilkynningu segir að Elín sé nú stödd í Djíbútí og þar bíður teymið eftir leyfi til að fara yfir Rauða Hafið og inn í Jemen til að vinna á sjúkrahúsi í borginni Aden. Jón Magnús er staddur í Genf og er væntanlegur til Djíbútí á föstudag. Í Aden koma þau til með að gera skurðaðgerðir á þeim sem hafa særst í stríðinu sem hefur staðið þar yfir. Vitað er að þar bíður þeirra mikill fjöldi særðra sem nauðsynlega þurfa á hjálp þeirra að halda. 

Elín er þaulvanur sendifulltrúi íslenska Rauða krossins og hefur áður starfað á Haítí eftir jarðskjálftann þar árið 2010 og á stríðssvæðum í Suður-Súdan og á Gasa. Jón Magnús sinnti slösuðum á vegum Rauða krossins í tjaldsjúkrahúsi eftir jarðskjálftann á Haítí.

Þess má geta að Alþjóða Rauði krossinn sendi frá sér yfirlýsingu þann 4. apríl þar sem krafist er 24 stunda hlés á bardögum til að koma inn til landsins meðal annars nauðsynlegum hjálpargögnum og skurðteyminu sem bíður í Djíbútí.

Elín Jakobína Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur.
Elín Jakobína Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur. Ljósmynd/Rauði krossinn
Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir.
Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir. Ljósmynd/Rauði krossinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert