Iðnaðarmenn á Suðurnesjum hafa nóg að gera þessa dagana. Ólafur S. Magnússon, þjónustufulltrúi FIT, stéttar- og fagfélags iðnaðarmanna og fólks í tæknigreinum, í Reykjanesbæ segir að skortur væri á iðnaðarmönnum á svæðinu.
„Það er mikið að gera,“ segir Ólafur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. „Það vantar nýliðun í greinarnar og nú vantar okkur fleiri unga menn. Þeir sem starfa í þessum iðngreinum í dag eru að eldast. Það er nóga vinnu að hafa fyrir alla og engir vinnufærir iðnaðarmenn atvinnulausir, að segja má.“
Hann segir að eitthvað hefði verið um að iðnaðarmenn af höfuðborgarsvæðinu sæktu vinnu á Suðurnes.