Borgin er eins og draugabær

Sveit vopnaðra manna á götum hafnarborgarinnar Aden í Jemen. Bardagar …
Sveit vopnaðra manna á götum hafnarborgarinnar Aden í Jemen. Bardagar hafa staðið lengi yfir þar á milli uppreisnarmanna og hersveita sem eru tryggar forseta landsins. AFP

Hafnarborgin Aden í hinu stríðshrjáða Jemen er eins og draugabær þar sem venjulegt líf hefur lagst af, að sögn Elínar Jakobínu Oddsdóttur skurðhjúkrunarfræðings sem vinnur á einu stærsta sjúkrahúsinu þar fyrir Alþjóða Rauða krossinn. Embættismenn segja hundruð manna hafa fallið í átökum í borginni.

Hersveitir Sádi-Araba hófu loftárásir gegn uppreisnarmönnum úr röðum Houthi-manna 26. mars. Uppreisnarmennirnir hröktu forseta landsins, Abdu Rabu Mansour Hadi, úr embætti í janúar en þeir ráða hlutum landsins. Margar borgir landsins eru án vatns og rafmagns vegna átakanna og hafa þúsundir særst og hundruð manna látist í þeim.

Elín hefur verið í hafnarborginni Aden í suðurhluta Jemens í níu daga en hún er hluti af skurðlæknateymi Alþjóða Rauða krossins. Bráðalæknirinn Jón Magnús Kristjánsson er einnig í teyminu. Þau þurftu að bíða í viku í Djíbútí eftir að fá leyfi til að fara inn í Jemen. Þegar það fékkst tók við fimmtán tíma sigling á opnum bát yfir Rauðahafið yfir nótt til að komast til Aden.

„Ástandið í Aden er náttúrlega ekki gott eins og hefur komið fram í öllum fréttum og fjölmiðlum. Borgin er bara draugabær. Það er allt lokað. Það er engin starfsemi, það er ekkert venjulegt líf. Ástandið er ekki gott. Það er búið að vera rosalega mikið um bardaga hér í Aden í langan tíma núna,“ segir Elín um upplifun sína af borginni.

Bjarga lífi margra

Í frétt á vef CNN kemur fram að borgarbúar séu gripnir skelfingu og örvæntingu. Þeir myndi biðraðir eftir nauðsynjum eins og brauði og matarolíu og rafmagn sé aðeins á í nokkrar klukkustundir á dag. Hvorugur stríðaaðilinn ráði borginni að fullu og síðdegis hefjist daglegar sprengjukúluárásir. Embættismenn telji að fjöldi látinna hlaupi á hundruðum.

„Við höfum haft meira en nóg að gera. Við erum að taka á móti almennum borgurum sem hafa særst í stríðinu hér í Aden. Við fáum fólk með skotsár um allan líkama. Þau geta verið alls konar, það eru skotsár í kvið, útlimi og höfuð. Það eru ekkert allir sem lifa, það eru margir sem deyja, en við erum samt að bjarga lífi margra, virkilega,“ segir Elín.

Aðbúnaðurinn er ekki góður á al-Jumhuriah-sjúkrahúsinu en teymið frá Rauða krossinum kom með allan þann búnað sem það þarf eins og skurðáhöld og umbúðir. Elín segir að vegna stríðsins sé fáliðað á sjúkrahúsinu. Fólk komist ekki að heiman og ef það kemst á spítalann komist það ekki aftur heim. Því sé teymið frá Alþjóða Rauða krossinum virkileg viðbót við starfið þar.

Elín hefur mikla reynslu af því að vinna við erfiðar aðstæður. Hún starfaði á Haítí eftir jarðskjálftann þar árið 2010 og hefur unnið á stríðssvæðum í Suður-Súdan og á Gasa. Aðeins eru þrjár vikur síðan hún sneri aftur úr fimm mánaða sendiför til Suður-Súdans.

Báðir aðilar koma fram við þau af virðingu

Ekki fer á milli mála að stríðsátök geisa í Aden. Viðtal blaðamanns við Elínu sem fór fram í gegnum síma var meðal annars truflað af skothvellum sem gullu við. Hún segir það vera daglegt brauð. Því er ekki að undra að afar strangar öryggisreglur gildi fyrir starfsfólk Alþjóða Rauða krossins.

„Við búum í húsi sem er afgirt. Við förum ekkert út. Við förum ekkert nema í mjög vel merktum bílum Alþjóða Rauða krossins. Við förum bara á spítalann og aftur heim. Það eru mjög strangar öryggisreglur,“ segir Elín.

Bæði spítalinn og húsnæði Rauða krossfólksins, sem er í um tíu mínútna fjarlægð frá sjúkrahúsinu, eru á yfirráðasvæði uppreisnarmanna.

„Þeir virða okkur og taka mjög vel á móti okkur og sýna okkur virðingu, hvort sem það eru þeir eða stjórnarherinn,“ segir hún.

Elín Jakobína Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur.
Elín Jakobína Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur. Ljósmynd/Rauði krossinn
Flóttamenn sem lögðu úr höfn í Aden komnir til Djíbútí, …
Flóttamenn sem lögðu úr höfn í Aden komnir til Djíbútí, handan Rauðahafsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert