„Ég var bara að reyna að hjálpa“

Eva Röver ásamt vinkonu sinni Ingibjörgu Elísu Jónatansdóttur
Eva Röver ásamt vinkonu sinni Ingibjörgu Elísu Jónatansdóttur

Sextán ára stúlka vann hetjudáð þegar tveir bræður, 9 og 12 ára, lentu í læknum við Reykdalsstíflu í Hafnarfirði á þriðjudag.

Eva Röver, nemandi í Lækjarskóla, var á leiðinni til vinkonu sinnar, þegar hún sá unga stelpu hlaupandi  í mikilli geðshræringu skammt frá læknum, kallandi á hjálp í síma. Hún sá síðan konu koma hlaupandi til stelpunnar og spyrja hana: „hvar eru þeir?“  

Eva hugsaði sig ekki um tvisvar og hljóp á eftir konunni að læknum þar sem þær sáu drengina í hyl neðarlega í rennu fyrir affalli Reykdalsstíflu.

Líkt og fram hefur komið var mjög mikill vatnsstraumur í stíflunni vegna leysinga. Þegar yngri bróðirinn féll í rennuna tók hann að sökkva og hringsnerist í hyl sem er neðst í rennunni, en árfarvegurinn í rennunni myndaði hringiðu í hylnum, ásamt því að gróður á botninum gerði það að verkum að fótfesta var lítil sem engin. Þegar Eva kom að læknum var eldri bróðirinn einnig dottinn ofan í lækinn en hann féll ofan í við að reyna að bjarga litla bróður sínum.

Straumurinn var hrikalegur

Eva og móðir drengjanna hjálpuðust að og náðu í sameiningu að koma eldri drengnum á land en að sögn Evu var það mjög erfitt því straumurinn var hrikalegur.

Um svipað leyti kom maður um þrítugt og reyndi að bjarga þeim yngri en féll sjálfur ofan í. Þær Eva og móðirin gátu ekki náð þeim á land enda meira en að segja það að ná einhverjum upp úr straumnum. Þegar lögregla kom á staðinn fór Eva að sinna systur bræðranna, sem er ellefu ára, og eðlilega mjög hrædd.

 „Ég fór með hana til hliðar svo hún sæi ekki bræður sína og reyndi að dreifa athyglinni hjá henni. Ég spurði hana meðal annars hvað hún héti og hvaðan hún væri og hún hætti að gráta eftir að ég var búin að tala við hana í smátíma,“ segir Eva sem hélt ró sinni sjálf allan tímann.

Þegar björgunarlið kom á staðinn tókst að ná manninum upp úr hylnum. Lögreglumaður reyndi að að bjarga yngri drengnum, sem var enn í hylnum, en við það lenti lögreglumaðurinn í sömu aðstöðu. Eftir einhvern tíma og tilraunir náðist í fótlegg lögreglumannsins og þannig að draga hann úr hylnum og yngri drenginn með, því lögreglumaðurinn hafði náð taki á drengnum og sleppti ekki þrátt fyrir að berjast sjálfur við strauminn.

Blá og marin og brákuð á úlnlið

Að sögn Evu voru drengirnir og maðurinn fluttir á sjúkrahús í kjölfarið en hún sjálf stóð eftir. Mamma Evu, Kristín Röver, bætir við að hún hafi fengið símtal frá ókunnugri konu úr síma dóttur sinnar sem biður hana um að sækja barnið sitt. Sjúkrabílar séu á staðnum og Eva í sjokki.

„Ég held að þeir hafi ekki vitað að ég hafi verið að aðstoða þar sem ég hafði farið með stelpuna aðeins frá til þess að róa hana,“ segir Eva þegar hún er spurð af blaðamanni um hvers vegna hún hafi ekki verið flutt á sjúkrahús.

Eva er blá og marin eftir átökin við að koma drengnum upp úr læknum auk þess sem hún brákaðist á úlnlið. Eins var hún rennandi blaut og köld þegar mamma hennar kom að og gat hlúð að henni.

Hún segist hafa fengið mikinn stuðning frá skólanum, Lækjarskóla, og eru þær mæðgur, Eva og Kristín, afar þakklátar viðbrögðum skólans og áfallateymi hans.

Haraldur Haraldsson skólastjóri kom strax um kvöldið heim til þeirra og daginn eftir fékk Eva aðstoð hjá áfallateymi skólans. „Það er algjörlega til fyrirmyndar hvernig staðið var að öllu af hálfu Lækjarskóla,“ segir Kristín en búið var að undirbúa alla nemendur skólans áður en Eva kom í skólann daginn eftir.

Hugsaði að ég mætti ekki detta sjálf ofan í

Eva, sem varð sextán ára tveimur dögum fyrir slysið, hefur ekki lært skyndihjálp en bæði lögregla og fleiri hafa talað um hversu rétt viðbrögð hún sýndi á slysstaðnum. Eva segist ekki hafa verið í sjokki á meðan á þessu stóð. „Ég var bara að reyna að hjálpa sem mest en eftir á fékk ég áfall,“ segir hún.

„Það sem ég hugsaði um var að ég mætti ekki detta sjálf út í lækinn. Því ég vissi að ef ég færi ofan í þá væri ég í sömu aðstöðu og þeir. Þannig að við, ég og mamma strákanna, hjálpuðumst að við að ná þeim eldri upp,“ segir Eva.

Að sögn Evu er það góð tilfinning að vita að sá yngri sé líka á batavegi og hún er í góðu sambandi við fjölskyldu drengjanna. Hún er búin að hitta þann eldri og stefnir á að hitta þann yngri fljótlega. Eva er fjölskyldunni þakklát fyrir að leyfi henni að fylgjast með hvernig drengjunum hefur reitt af og að þeir séu báðir að ná sér.

„Þetta er kraftaverk, ekkert annað,“ segir Kristín móðir Evu.

Slæm tilfinning að geta ekki aðstoðað manninn

Aðspurð  hvort það hafi hvarflað að henni að þykjast ekki sjá neitt þegar hún sá stelpuna í upphafi þá segir Eva að það hafi aldrei komið til greina. „Að sjálfsögðu hljóp ég strax að vatninu og reyndi að hjálpa,“ segir Eva. Hún segir að það hafi hins vegar verið mjög slæm tilfinning að sjá manninn detta ofan í og geta ekkert gert, „við vorum tvær saman og við gátum með naumindum náð stráknum upp. Við hefðum aldrei getað bjargað manninum upp úr. Það var ömurleg tilfinning og ég gat ekkert gert þegar hann missti meðvitund í vatninu,“ segir Eva.

Eva er ekki ókunnug læknum og var hann leiksvæði hennar og vina hennar þegar hún var yngri. En árið 2007 var stíflunni breytt og settur stallur í hana þar sem strákarnir lentu ofan í. Við þessa breytingu er ekki möguleiki á að standa þarna ofan í og engin fótfesta meðal annars vegna gróðurs. Ekki bætti mikill straumur úr líkt og var þegar slysið varð. Lækurinn er því mikil slysagildra en líkt og fram hefur komið í fréttum hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði brugðist við og gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slys sem þetta komi fyrir aftur.

Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn
Frá björgunaraðgerðum í Reykjadalsstíflu í Hafnarfirði
Frá björgunaraðgerðum í Reykjadalsstíflu í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn
Frá björgunaraðgerðum í Reykjadalsstíflu í Hafnarfirði
Frá björgunaraðgerðum í Reykjadalsstíflu í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn
Frá björgunaraðgerðum í Reykjadalsstíflu í Hafnarfirði
Frá björgunaraðgerðum í Reykjadalsstíflu í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði
Frá björgunaraðgerðum í Reykdalsstíflu í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert