Mismunun að taka sykurskertan Svala af markaði?

Sykurskertur Svali var tekinn af markaði um áramótin.
Sykurskertur Svali var tekinn af markaði um áramótin. ljósmynd/Eygló Jósephsdóttir

Sykurskertur Svali var tekinn af markaði um síðustu áramót, en ekki eru allir sáttir við þessa ákvörðun Vífilfells. Eygló Jósephsdóttir er móðir sykursjúks drengs og segir drykkinn hafa verið þann eina sem sonur hennar gat gripið með sér fyrir utan vatn og mjólk.

„Það er í raun enginn drykkur í fernu sem hefur eins lítil áhrif á blóðsykur og sykurskertur Svali,“ segir Eygló, og bætir við að ákvörðunin um að taka drykkinn af markaði sé í raun skerðing á lífsgæðum sonar síns og annarra sem glíma við sjúkdóminn. 

Getur ekki verið eins og venjulegur unglingur

„Sonur minn getur ekki verið eins og venjulegur unglingur og gripið sér drykk úti í búð, heldur þarf hann alltaf að vera með nestistöskuna á sér ef hann ætlar að hafa eitthvað að drekka. Það er nóg að vera með sykursýki án þess að þurfa að vera að hugsa stanslaust um þetta,“ bætir hún við, en fyrir utan vatn og mjólk getur sonur hennar aðeins drukkið sykurskert appelsínuþykkni frá Ölgerðinni, en hana þarf þó alltaf að blanda.

„Það er vissulega til sykurskert þykkni og svo er hægt að kreista appelsínu út í vatnið, en samt sem áður þarf hann alltaf að standa í því að græja sitt og getur ekki farið út í búð og reddað sér öðruvísi,“ útskýrir hún. Hún bendir þó á að sykurskert gos sé vissulega valkostur líka, en sá valkostur hæfi ekki börnum.

Segir val eins hóps skert

Ávaxtasykur hefur gríðarleg áhrif á blóðsykur og ruggar bátnum svo mikið að sögn Eyglóar að ómögulegt er fyrir sykursjúk börn að drekka aðra safa. Var sykurskerti Svalinn eini svaladrykkurinn sem hún hafði fundið sem var ekki með yfir 5 grömm af sykri á hvert hundrað gramm. Hún segir suma þó ekki sneiða mikið hjá sykruðum vörum, heldur sprauta frekar meira insúlíni og finni jafnvægi í því. Eygló segist þó ná betra jafnvægi með aðgengi að sykurskertu vörunum.

Þá segir hún vissulega hollast að drekka aðeins vatn, en börnum þyki auðvitað gott að fá stundum eitthvað annað. Þá hafi sykurskertur Svali til dæmis verið gefinn sykursjúkum börnum á spítala þegar þau hafa veikst.

Hún segist hvað svekktust yfir fækkuninni á vöruúrvalinu, en með því sé einn hópur fólks tekinn fyrir og val hans skert. „Það vill enginn láta barnið sitt drekka sykurskertan Svala allan daginn, en það er svo mikilvægt að hafa valið,“ segir hún. „Viljum við ekki hafa fjölbreytt vöruúrval fyrir fjölbreyttan hóp af fólki?“

Ekki nægileg eftirspurn eftir drykknum

Þegar Eygló komst að því að sykurskerti Svalinn hefði verið tekinn af markaði sendi hún póst á Vífilfell og óskaði í einlægni eftir því að drykkurinn yrði settur aftur á markað. Hún fékk engin svör, en fór af stað til að birgja sig upp. Drykkurinn var nánast hvergi til, en hún fann hann þó loks á Flúðum þar sem hún keypti upp lagerinn. Nú fer sonur hennar fljótlega að klára birgðirnar, og segist hún þegar vera orðin áhyggjufull yfir því þegar það gerist.

Eygló opnaði Facebook-síðuna Sykurskertan Svala aftur á markað og hefur fengið mikil viðbrögð eftir það. Þó segir hún suma vera á móti því að drykkurinn fari aftur í framleiðslu, þar sem hann inniheldur asparham. „Asparham er hugsanlega vont og það eru skiptar skoðanir á því hversu óhollt það er, en það hefur ekki áhrif á blóðsykurinn en jafnvægi hans er lífsspursmál fyrir sykursjúka. Þeir sem ekki eru sykursjúkir hafa val og geta sneitt hjá þessum vörum, en mér finnst þeir sykursjúku eiga að hafa valið líka.“

Samkvæmt upplýsingum frá Vífilfelli var varan tekin af markaði þar sem ekki nægileg eftirspurn var eftir henni. Í staðinn var settur á markað annars vegar jarðarberja-Svali og hins vegar berja-Svali, sem innihalda 30% minni sykur. Að sögn Eyglóar er þó helmingi meira magn af sykri í þeim en sykurskerta Svalanum sem innihélt 3,4 grömm af sykri.

Vífilfell framleiðir Svala.
Vífilfell framleiðir Svala. mbl.is/Jim Smart
Eygló bendir á að sykurskert gos sé vissulega valkostur líka, …
Eygló bendir á að sykurskert gos sé vissulega valkostur líka, en sá valkostur hæfi ekki börnum. mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert