Vildi ekki gefa upp dvalarstað sinn

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu skömmu eftir klukkan ellefu í gærkvöldi um karlmann sem hefði dottið fyrir utan veitingastað í vesturbæ Reykjavíkur. Kom í ljós að maðurinn hafði fengið höfuðhögg við fallið og var sjúkralið kallað á vettvang.

Ekki þótti ástæða til þess að flytja manninn á slysadeild en þegar koma átti honum heim reyndist hann ófær um að greina frá dvalarstað sínum sökum ölvunar. Þá var hann einnig lyklalaus. Fyrir vikið var ákveðið að vista manninn í fangageymslum uns af honum rynni.

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu um klukkan hálftvö í austurhluta borgarinnar vegna ölvaðs manns. Þar var ungur piltur til vandræða. Þegar reyna átti að koma honum til síns heima neitaði hann að fara að fyrirmælum lögreglu, hafði í hótunum við lögreglumenn og neitaði að gefa upp dvalarstað sinn. Eftir talsvert þóf var ákveðið að vista manninn í fangageymslu þar til hann væri í viðræðubetra ástandi.

Fleiri mál komu inn á borð lögreglunnar í nótt og þá einkum tengd ölvunarakstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert