Endurvekja minningar úr Kerlingarfjöllum

Þátttakendur fá leiðbeiningar um það hvernig best sé að ganga …
Þátttakendur fá leiðbeiningar um það hvernig best sé að ganga upp og skíða niður. Mynd/Smári Stefánsson

Margir eiga eflaust góðar minningar af skíðaferðum í Kerlingarfjöll þar sem skíðasvæði var starfrækt fram á tíunda áratug síðustu aldar. Nú stendur til að bjóða upp á fjallaskíðaferðir um svæðið, með gistingu í skálunum. 

„Það eru frábærar aðstæður til skíðaiðkunar. Brekkurnar eru skemmtilegar og snjórinn helst fram eftir sumri,“ segir Smári Stefánsson, fjallaleiðsögumaður hjá Laugarvatn Adventures. Býður fyrirtækið nú upp á þrjár helgarferðir í fjöllin í maí.

Á föstudeginum verður ekið á áfangastað en á leiðinni verður stoppað til að ganga á einn fjallstind og skíða niður. Sennilega verður Bláfell fyrir valinu að sögn Smára. Á laugardeginum og sunnudeginum verður skíðað í fjallinu og á laugardagskvöldinu verður kvöldskemmtun og sameiginlegur kvöldmatur í skálanum. „Það er frábær aðstaða í skálanum og veitingaaðstaða sömuleiðis,“ segir Smári. 

Hann segist sjálfur hafa prófað að skíða í fjöllunum í vetur auk þess sem hann segist eiga góðar minningar þaðan úr æsku.

„Við ákváðum að prófa þetta. Hingað til hef ég verið að stunda fjallaskíðmennsku mikið og verið leiðsögumaður á Hnjúkinn. Fjallaskíði er gríðarlega vaxandi sport og það eru fleiri og fleiri sem byrja með hverju árinu.“

„Margir Íslendingar eiga frábærar minningar úr Kerlingarfjöllum. Við munum svo sjá til þess að gestirnir fái leiðbeiningar um það hvernig er best að ganga upp og skíða niður,“ bætir Smári við og segist þegar hafa fengið fyrirspurnir um ferðirnar.

Fjallaskíðamennska hefur rutt sér rúms hér á landi síðustu ár og er mikið stundið bæði fyrir norðan og á Suðurlandi. 

„Norðurlandið hefur það fram yfir suðrið að þar er oft hægt að aka alveg upp að fjallinu og ganga strax á skíðunum. Hér á Suðurlandi þarf oft að ganga smá spöl áður en hægt er að spenna á sig skíðin. En í Kerlingarfjöllum getum við keyrt alveg upp að fjallinu og þar með sparast labbið,“ segir Smári.

Brunað um snæviþaktar hlíðar.
Brunað um snæviþaktar hlíðar. Mynd/Smári Stefánsson
Fjallaskíðamennska er stunduð um allt land.
Fjallaskíðamennska er stunduð um allt land. Mynd/Smári Stefánsson
Mynd/Smári Stefánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert