4G sett upp á 18 mánuðum

Kort/Síminn

Síminn stefnir á að byggja upp og loka 4G langdræga hringnum í kringum landið á næstu átján mánuðum. 3G sjósambandið er nær óslitið um strandlengjuna og með 4G verður netsambandið enn öflugra, segir í fréttatilkynningu. 

„Viðskiptavinir með sjósamband hjá Símanum sitja einir að 3G langdrægu kerfi fyrirtækisins,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, í fréttatilkynningu. „Með 4G verður netsambandið enn betra. Það gefur ekki aðeins tækifæri í rekstri útgerðarfélaga heldur getur bætt lífsgæði sjómanna frekar. Hásetar hafa til dæmis getað stundað fjarnám um borð í skipum vegna síbatnandi fjarskipta.“

4G sendir á Bolafjalli fyrir vestan er fyrstur á dagskrá. Síðan verður byggt jafnt og þétt upp.

Síminn hefur í rúmt ár byggt upp 4G kerfið sitt sem nær til 82,5% landsmanna. Nú síðast voru settir upp sendar í Þorlákshöfn og á Húsavík. Allir 4G sendar Símans ná nú 150 Mbps hraða, sem er ríflega þrefalt meiri hraði en sá mesti á 3G.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert