„Búinn að ákæra þig fyrir brot“

Pétur Kristinn Guðmarsson, fyrrverandi starfsmaður eigin kaupa Kaupþings ásamt verjendum.
Pétur Kristinn Guðmarsson, fyrrverandi starfsmaður eigin kaupa Kaupþings ásamt verjendum.

Mikill aðstöðumunur er á ákærða og saksóknara í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Það kemur vel í ljós á þeim fjármunum sem hvor aðili um sig hefur úr að spila. Þetta segir Pétur Kristinn Guðmarsson, einn ákærðu í málinu, en annar dagur af yfirheyrslum yfir honum hófust í héraðsdómi í dag.

Hundrað manns með hundrað milljónir

„Þið eruð hundrað manns með hundrað milljónir í budget,“ sagði Pétur og bætti við að á sama tíma væri hann einn á móti þeim og þyrfti hann að vinna og sjá fyrir fjölskyldu sinni.

Saksóknari var þá að fara yfir símtöl og tölvupósta sem ákærði hafði sent í upphafi árs 2008 og gagnrýndi Pétur að aðeins væru spiluð brot úr símtölum en þau ekki öll. Þetta skilaði sér oft þannig að hlutir væru slitnir úr samhengi. Sagði saksóknari að Pétur gæti bent á ef hann teldi hluti tekna úr samhengi og nefndi að honum hefði verið frjálst að koma til sérstaks saksóknara og hlusta á símtölin. Pétur sagði þá tíma til þess takmarkaðan.

„Átt að tryggja skynsama verðmyndun“

Í öðru símtali sem borið var undir ákærða ræddi hann við Einar Pálma Sigmundsson, yfirmann eigin viðskipta Kaupþings og yfirmann Péturs. „Þú átt að tryggja skynsama verðmyndun í Svíþjóð,“ sagði Einar og taldi saksóknari þetta benda til meints ólöglegs athæfis ákærða á markaði. Pétur sagði verðmyndun þarna þó tákna seljanleika bréfanna, en að það hefði einmitt verið hlutverk hans hjá bankanum og ekkert ólöglegt við það.

„Þú ert að gera þetta tortryggilegt“

Í símtalinu tekur Pétur fram að hann geri ekki ráð fyrir dramatískum breytingum þennan dag. Í dómsalnum bendir hann svo á að þennan sama dag hafi markaðurinn lækkað um rúmlega 4%, en það hafi verið mesta lækkun í tvö ár. Segir þetta sýna svart á hvítu að samræður þeirra í deildinni hafi verið ágiskanir um hegðun markaða, en ekki dæmi um að þeir stjórni hlutabréfaverðinu.

„Þú ert að gera þetta tortryggilegt,“ sagði Pétur um spurningar saksóknara, sem svaraði af bragði: „já ég er búinn að ákæra þig fyrir brot.“ Við það uppskar hann hlátur viðstaddra.

Björn Þorvaldsson saksóknari ásamt aðstoðarfólki.
Björn Þorvaldsson saksóknari ásamt aðstoðarfólki.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka