ESB bregst við bréfi stjórnvalda

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti í dag að ráðast mögulega í ákveðnar úrbætur á verklagi sambandsins í kringum aðildarviðræður ríkja að Evrópusambandinu.

Í fundargerð ráðs ráðherraráðsins um almenn málefni kemur fram að utanríkisráðherra Lettlands hafi lagt til að farið verði yfir ákveðna verkferla varðandi aðildarviðræður ríkja að ESB en tillagan er komin til vegna þess sem fram kom í bréfi íslenskra stjórnvalda til sambandsins í síðasta mánuði.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir að með þessu sé það ljóst að Evrópusambandið taki mark á bréfi íslenskra stjórnvalda og að sambandið muni bregðast við því. Mikið var deilt um bréfið í síðasta mánuði en þar var umsókn Íslands að Evrópusambandinu afturkölluð og aðildarviðræðum slitið af hálfu íslenskra stjórnvalda. Sagði stjórnarandstaðan m.a. að Evrópusambandið gæti ekki tekið mark á bréfinu þar sem ekki lægi fyrir þingsályktun þess efnis að afturkalla ætti umsókn Íslands að ESB.

„Þetta verður ekkert skilið öðruvísi. Þeir taka mið af því sem íslensk stjórnvöld segja í sínu bréfi og telja svo þarna að þeir ætli að fara í gegnum sína verkferla og annað,“ segir Gunnar Bragi og bætir við að í bréfi íslenskra stjórnvalda til ESB hafi íslensk stjórnvöld farið fram á að sambandið færi yfir sína verkferla.

Sterk vísbending um að tekið verður mark á bréfi stjórnvalda

„Ég tel þetta vera mjög gott svar. Þetta er niðurstaða þessa ráðs og ég geri ráð fyrir að þetta verði svarið sem við munum fá frá þeim formlega. Þegar það kemur þá geri ég ráð fyrir að þetta verði innihaldið,“ segir Gunnar Bragi.

Hann á ekki von á að það komi neitt frá Evrópusambandinu til íslenskra stjórnvalda nema staðfesting á þessu. „Síðan förum við að tínast af listum,“ segir Gunnar sem er ánægður með að með þessu sýni ráðherraráðið og sanni að það ætli sér að virða vilja íslenskra stjórnvalda. „Enda kom ekkert annað til greina,“ segir hann.

Viðbrögð ráðherraráðsins voru skráð í fyrrnefnda fundargerð undir liðnum „Stækkun“ (e. Enlargement) þar sem „samband við Ísland“ (e. Relations with Iceland) var það eina sem var til umfjöllunar.

Sækja má fundargerðina á vefsíðu ráðherraráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert