Gefa ofbeldi fingurinn

UN Women gefa ofbeldi fingurinn.
UN Women gefa ofbeldi fingurinn. Ljósmynd/ UN Women

Fokk ofbeldi armbandið vakti víða athygli og seldist upp á nokkrum vikum. Vegna mikillar eftirspurnar hefur UN Women á Íslandi látið útbúa taupoka í anda herferðarinnar. Samtökin efna til sumarveislu í Spark Design við Klapparstíg til að fagna pokunum á morgun sem er einmitt síðasti dagur vetrar, svona formlega í það minnsta.

Samkvæmt fréttatilkynningu UN Women er pokinn ætlaður fullorðnum. Orðalagið er vísvitandi ögrandi og ætlað að hreyfa við fólki og stuðla að vitundarvakningu um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi.

„Ef orðalagið fer fyrir brjóstið á fólki þá er mikilvægt að muna að ein af hverjum þremur konum verða fyrir ofbeldi á lífsleiðinni  og 39 þúsund stúlkur eru þvingaðar í hjónaband á hverjum einasta degi eða ein á þriggja sekúndna fresti. Þetta mun aldrei breytast nema að við tökum höndum saman. Ef viðkvæm eyru spyrja út í orðalagið, má líta á það sem rakið tækifæri til að útskýra fyrir þeim alvarleika ofbeldi,“ segir í fréttatilkynningunni.

Herferðin er hugarfóstur Kötlu Rósar Völudóttur og Ragnars Más Nikulássonar. Dansarar mynduðu í sameiningu orðin FOKK OFBELDI með líkömum sínum og ljósmyndarinn Saga Sig myndaði dansflokkinn.

Allur ágóði af pokunum rennur í Styrktarsjóð SÞ til afnáms ofbeldis gegn konum og stúlkum sem vinnur að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum í fátækustu löndum heims. Starfsemi UN Women er eingöngu byggð á frjálsum fjárframlögum aðildarríkja SÞ, einkaaðilum og frá frjálsum félagasamtökum og því skiptir hver króna máli.

Allir eru hjartanlega velkomnir í partýið í Spark Design, Klapparstíg 33, kl.17 síðasta vetrardag, 22.apríl. Fokk ofbeldi pokinn verður seldur á staðnum og á vefverslun unwomen.is frá og með 22.apríl. Pokinn kostar 2.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert