Rangt að sprauta á mótmælendur

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn

„Það er góð grunnregla að faglega sé staðið að því að meta réttmæti þess þegar ofbeldi hefur verið beitt. Ég bað því um að forseti Alþingis myndi rannsaka málið og hann lét sýna okkur á fundi forsætisnefndar myndbandið úr öryggismyndavél þingsins. Þar sést skýrt að mótmælandi veitist að öryggisverði þingsins sem reynir að ná honum af sér bakkandi all langa leið þar til hann snýr mótmælendan af sér.“

Þetta segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, á vefsíðu sinni í dag vegna þeirrar niðurstöðu Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, að eðlilega hafi verið staðið að málum þegar þingvörður sneri niður mótmælanda við Alþingishúsið fyrir helgi eftir að sá síðarnefndi veittist að þingverðinum. Reyndi mótmælandinn að koma í veg fyrir að þingvörðurinn gæti skolað stéttina við þinghúsið þar sem krítað höfðu verið skilaboð frá mótmælendum.

„Ég bað um að öryggismyndbandið væri gert opinbert því það myndi taka af um öll tvímæli og gefa öryggisverðinum uppreisn æru með því að sýna réttmæta beitngu ofbeldisins. Skrifstofa Alþingis segir að þeir hafi ekki lagaheimild til að afhenda neinum myndböndin nema lögreglu ef málatilbúnaður verður úr þessu. Kalt mat mitt er að mótmælandinn mun ekki kæra því hann veittist að þingverðinum,“ segir Jón Þór.

Hins vegar séu það „ekki fagleg vinnubrögð til að tryggja öryggi að sprauta köldu vatni á krítar-mótmælendan sem á engan hátt ógnar öryggi neinns. En það er einmitt eftir að sprautað hefur verið á krítar-mótmælendan oftar en einu sinni að hin umræddi mótmælandi reynir að grípa slönguna af þingverðinum og er snúin niður.“

Þingmaðurinn segir ljóst að mótmælendurinir hafi verið að ögra. Það væri hins vegar ekki ólöglegt. „Fagleg vinnubrögð öryggisvarða og lögreglu almennt við slíkar kringumstöður er að halda ró sinni og hafa öryggi í forgangi. Að sprauta á mótmælendur sem ógna ekki öryggi neins getur gert aðstæður sem þessar óöruggari.“

Fréttir mbl.is:

Eðlileg viðbrögð þingvarðar

„Ólíðandi“ vinnubrögð þingvarða

Lenti í átökum við þingvörð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert