Tutzy var send aftur til Noregs

Tutzy í góðu yfirlæti.
Tutzy í góðu yfirlæti.

Tutzy, tæplega fjögurra ára gömul tík af Chihuahua-kyni, átti að flytja frá Noregi til Íslands í gær, en fór erindisleysu og var send aftur til síns heima í Noregi vegna verkfalls dýralækna í BHM. Forstjóri Matvælastofnunar, MAST, segir að skilaboð hafi verið send öllum þeim sem hugðust flytja dýr inn í landið þessa dagana þess efnis að röskun gæti orðið á flutningunum. Thelma Rut Magnúsdóttir, eigandi Tutzyar, segist engin slík skilaboð hafa fengið.

Verkfall fjögurra stéttarfélaga innan BHM hófst í gær, þeirra á meðal eru dýralæknar hjá Matvælastofnun, sem hafa eftirlit með innflutningi dýra. Þeir taka á móti dýrunum við komuna, skoða þau gögn sem þeim fylgja og staðfesta að umrætt dýr hafi fengið leyfi til landgöngu. Að því búnu fer dýrið í fjögurra vikna vist í einangrunarstöð ýmist í Hrísey eða Reykjanesbæ.

Vissi ekki af verkfallsaðgerðum

Thelma flutti frá Íslandi til Kristianstad í Noregi fyrir um tveimur árum og var þá Tutzy með í för, en nú hafði verið ákveðið að hundurinn myndi fara aftur til Íslands og eiga heimili hjá móður Thelmu. Frá því hafði verið gengið með löngum fyrirvara að sögn Thelmu, sem segist lítið fylgjast með fréttum á Íslandi og vissi því ekki af verkfallsaðgerðum. „Tutzy fór í sprautur, allsherjarskoðun og sýnatökur hjá dýralækni áður en við máttum flytja hana til Íslands. Ég gekk frá því fyrir löngu, líka plássi á einangrunarstöð og vissi ekki betur en að allt væri í besta lagi.“

Aflífaður eða til Noregs

Thelma segir að fari svo að Tutzy komist ekki fljótlega til Íslands, þurfi hún að fara í gegnum allt ferlið hjá dýralækni á ný, með tilheyrandi kostnaði, þar sem mörk séu á þeim tíma sem líða megi frá sprautunum og þar til dýrið kemur til Íslands.

Þegar móðir Thelmu lenti á Íslandi um hádegisbilið í gær voru henni kynntir tveir valkostir; annaðhvort færi hún til baka til Noregs með hundinn, eða hann yrði aflífaður. Hún valdi fyrri kostinn, fór með Tutzy aftur til Noregs með sömu flugvél SAS og hún kom með hingað til lands og Thelma sótti um undanþágu til undanþágunefndar BHM um að hundurinn fengi að koma til Íslands sem fyrst. Henni var hafnað.

Segir MAST hafa sent skilaboð

Jón Gíslason, forstjóri MAST, segir að allir, sem hugðust flytja inn dýr frá og með deginum í gær, hafi fengið skilaboð frá stofnuninni um að verkfall gæti verið yfirvofandi og þeir beðnir um að flytja ekki dýrin til landsins þar sem dýralæknir gæti ekki tekið á móti þeim við komuna eins og lög gera ráð fyrir.

Thelma segist engin slík skilaboð hafa fengið, engin athugasemd hafi komið frá SAS og því hafi hún sent Tutzy grunlaus úr landi. „Ég fékk engin slík skilaboð. Ég hefði auðvitað aldrei sent dýrið af stað hefði ég vitað af þessu.“

Frétt mbl.is: Fékk ekki landvist vegna verkfalls

Thelma og Tutzy.
Thelma og Tutzy.
Smáhundurinn Tutzy fór frá Noregi til Íslands og aftur til …
Smáhundurinn Tutzy fór frá Noregi til Íslands og aftur til baka í gær.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert