Tryggvi Ólafsson myndlistarmaður færði í dag börnum og ungmennum í Reykjavík rausnalega gjöf sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti viðtöku í Tjarnarsal Ráðhússins á helsta hátíðardegi barna, Sumardeginum fyrsta.
Gjöfin samanstendur af 210 litógrafíum eftir listamanninn, og gefur hann sérhverjum leikskóla og grunnskóla í borginni tvær myndir. Þá gaf hann skólahljómsveitunum grafíkmyndir af þekktum djassleikurum, og eru verkin alls 250 sem hann gefur.
Við afhendingu þessarar rausnalegu sumargjafar lék kvartett úr skólahljómsveit Austurbæjar og reykvísk börn færðu listamanninum gjafir; myndverk og nýútkomna bók með sögum 8-10 ára barna.
Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að Tryggvi Ólafsson er fæddur á Norðfirði árið 1940. Hann hafði frá barnæsku „dellu“ fyrir hvers konar myndum, rétt eins og aðrir strákar höfðu fyrir rokktónlist eða fótbolta og mótorhjólum. „En í skólanum voru engar myndir, ekki einu sinni af Stalín, sem þó var mikið í tísku í þá daga. Í gagnfræðaskólanum var ekki ein einasta mynd, en þar tók Tryggvi landspróf vorið 1956.“
„Þorsta sínum í myndagrúsk svalaði Tryggvi í býsna góðu bókasafni föður síns. Úr þeim bókum er honum margt minnisstætt enn í dag. Myndaástríðan hefur aldrei yfirgefið Tryggva sem hefur nú málað myndir í 60 ár. Hann verður 75 ára í sumar og langar til þess að allir skólar í Reykjavík eignist a.m.k. tvær myndir á vegg til þess að börn og unglingar megi horfa á þær, jafnvel þótt komnir séu snjallsímar og fésbók og allt það. Málarinn Picasso sagði að gildi myndar væri fyrst og fremst það að hún stæði kyrr. Tryggvi vonar að börn og unglingar í Reykjavík hafi gaman af að horfa á myndir á vegg,“ segir í tilkynningunni.