Útvarpslóðin til sölu

Byggingarréttur á lóð Efstaleitis 1 þar sem Útvarpshúsið stendur verður formlega auglýstur til sölu á morgun. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá RÚV en salan er hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu Ríkisútvarpins sem staðið hefur yfir á undanförnum mánuðum.

„Fyrr í vetur hleyptu Reykjavíkurborg og Ríkisútvarpið af stokkunum hugmyndasamkeppni um skipulag á svæði sem er í heild 5,9 ha að stærð, en sjálf RÚV lóðin er 4,4 ha. Lóðin er vel staðsett miðsvæðis í borginni og bíður upp á mikla möguleika á hagkvæmri nýtingu á innviðum borgarinnar,“ segir í fréttatilkynningunni.

„Samkvæmt skipulagsforsögn sem samþykkt var í Umhverfis- og skiplagsráði Reykjavíkurborgar og Borgarráði í lok janúar er gert ráð fyrir fjölbreyttri og blandaðri byggð með séreigna- og leiguíbúðum auk möguleika á uppbyggingu verslunar og þjónustu.“

Alls voru fimm hópar arkitektastofa dregnir út í forvali fyrir hugmyndasamkeppnina og vinna nú að útfærslu hugmynda. Í fréttatilkynningu RÚV segir að ætla megi að byggð muni þéttast verulega með möguleika af yfir 200 íbúðum á svæðinu. Í söluferlinu muni Ríkisútvarpið leggja mikla áherslu á að gagnsæis sé gætt og að allir hafi jafnan rétt á tilboðsgerð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert