Evaristti frjáls ferða sinna

Marco hellti fimm lítrum af rauðum ávaxtalit í Strokk.
Marco hellti fimm lítrum af rauðum ávaxtalit í Strokk. Ljós­mynd/ face­book.com/​pages/​Marco-Evarist­ti

Listamaðurinn Marco Evaristti er frjáls ferða sinna og heimil brottför af landinu hvort sem hann greiðir 100 þúsund krónur í sekt eða sætir 8 daga fangelsi fyrir brot gegn ákværðum laga um náttúruvernd. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. 

Þar segir að Evaristti hafi verið yfirheyrður af lögreglunni á Suðurlandi í dag, grunaður um að hafa brotið gegn ákvæðum náttúruverndarlaga nr. 44/1999 með því að hafa hellt rauðu litarefni í goshverinn Strokk við Geysi að morgni 24. apríl.

Evaristti viðurkenndi þetta og bar því við að um listgjörning hefði verið að ræða. Sagðist hann hafa gætt þess sérstaklega að ekki hlytist varanlegt tjón af verknaðinum, m.a. með því að nýta litarefni sem eyddist hratt upp og ylli ekki skaða í náttúrunni. Skoðun lögreglu á vettvangi bendir til þess að þetta sé að minnsta kosti að einhverju leyti rétt því lítil sem engin ummerki sjást á eða við hverinn.

Að lokinni skýrslutöku var manninum boðið að ljúka málinu með því að samþykkja sektargerð þar sem honum er gert að greiða 100.000.- króna sekt en til vara að sæta 8 daga fangelsi greiði hann ekki sektina. Hann óskaði eftir því að fá að ráðfæra sig við lögmann vegna þessa en kvaðst myndi gera upp hug sinn áður en hann færi af landinu um hvort hann vildi ljúka málinu með þessum hætti eða ekki.

„Kjósi hann að ljúka málinu ekki með þessum hætti mun ákæruvaldið taka ákvörðun um útgáfu ákæru á grundvelli málsgagna og fær málið þá sína meðferð fyrir íslenskum dómstólum. Maðurinn er frjáls ferða sinna og heimil brottför af landinu hvora leiðina sem hann velur. Hann hefur verið samstarfsfús við lögreglu og lagt sig fram um að upplýsa alla þætti málsins,“ segir í tilkynningu lögreglunnar vegna málsins. 

Fréttir mbl.is um málið: 

Stöðvaður útvegi hann ekki tryggingu

Evaristti ætlar ekki að greiða sektina

Ekki list heldur sóðaskapur

Hellti ávaxtalit í Strokk

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert