Kærðir og kærulausir hundaeigendur

Borgin þurfti að aflífa sex hunda á síðasta ári þar …
Borgin þurfti að aflífa sex hunda á síðasta ári þar sem enginn kom til að vitja þeirra og ekki fannst annað úrræði. Sigurgeir Sigurðsson

Hundaeftirlitsmaður hjá Reykjavíkurborg segir að kvartanir og tilkynningar um týnda hunda geti bæði leitt til farsællar og miður skemmtilegrar niðurstöðu. Borgin þurfti að aflífa sex hunda á síðasta ári þar sem enginn kom til að vitja þeirra og ekki fannst annað úrræði. Dæmi eru um að hundaeigendur séu kærðir þegar eftirlitsmenn koma til að sækja hunda þeirra.

Skráðar kvartanir vegna hunda í Reykjavík voru 273 í fyrra en þeim hefur farið fækkandi undanfarin ár samkvæmt upplýsingum Reykjavíkurborgar. Það sem af er ári hafa 95 kvartanir borist. Óskar Björgvinsson hundaeftirlitsmaður segir algengast að kvartað sé undan hundum í fjölbýli. Nýlega breyttust reglur á þann veg að nú þarf einungis samþykki 2/3 hluta íbúa fyrir hundahaldi í stað allra áður.

Stundum skellt á nefið

Óskar segir að hundaeigendur hafi oft þá einu úrlausn að flytja þegar aðrir í fjölbýli setji sig gegn því að hundahald sé leyft í húsinu. „Ég er með eitt mál þar sem íbúð var keypt með þeim fyrirvara að hundahald væri leyft. En þegar upp var staðið kom í ljós að svo var ekki. Farið var í það að ná hundinum úr húsi. En tilfinningar eru oft svo miklar í þessum málum. Fólk er farið að manngera hundana og flytur frekar en að losa sig við hundinn,“ segir Óskar.

Í öðrum tilfellum velur fólk að flytja ekki. Í þeim tilvikum þarf atbeina lögreglu til að fjarlægja hundinn samkvæmt dómsúrskurði. „Stundum fáum við hundana án vandræða, en stundum er líka skellt á nefið á okkur,“ segir Óskar. Hann segir að dæmi séu um að hundaeigendur hafi beitt eftirlitsmenn ofbeldi. „Menn hafa verið kærðir fyrir framkomu sem ekki er hægt að líða. Bæði þegar menn lemja frá sér og hafa í hótunum,“ segir Óskar.

Ef hundar finnast á vergangi eru þeir geymdir í hundageymslum. Kostnaður við að fá hundana til baka er 28.700 kr. en 47 þúsund krónur ef hundurinn er óskráður. Aukalegur kostnaður fellur til ef hundur er ekki sóttur samdægurs. „ Stundum á fólk ekki fyrir þessu. Ef enginn vitjar hundsins, eða ef hundur er án örmerkis, má sveitarfélagið ráðstafa honum eftir tvo sólarhringa. Það er kannski ekki alltaf gert því stundum veit eigandinn ekki að hundurinn hans er týndur,“ segir Óskar.

Oftast finnst farsæl lausn

Hann segir að reynt sé eftir fremsta megni að finna önnur heimili fyrir hunda. Ef það tekst ekki er hundurinn aflífaður. Á síðasta ári þurfti að aflífa sex hunda vegna þessa að sögn Óskars.

„Sem betur fer finnst oftast farsæl lausn á þessu. Stundum hefur maður samt á tilfinningunni að fólk sé að losa sig við hunda án þess að neinn viti,“ segir Óskar.

„Lausnin í þessu mannlega“

„Það kom oft upp mikil kergja þegar einn gat staðið í vegi fyrir að hægt væri að vera með hund í fjölbýli. Eitt sinn var einn íbúi mjög á móti því að leyfa hundahald í húsinu. Komið var að lokapunkti og fjarlægja þurfti hundinn. Slíkt getur tekið mjög langan tíma. Lögreglan var komin í málið. Þegar við vorum að nálgast þá allt í einu brá svo við að við fengum orðsendingu frá þeim sem hafði staðið í vegi fyrir þessu allan tímann, en íbúinn ætlaði að gefa leyfi sitt. Allt endaði þetta farsællega en svona geta hlutirnir undið upp á sig þegar lausnin er til staðar. Oft felst lausnin í þessu mannlega, þegar einhver kemur biðlandi og sorgmæddur til manns, þá er oft gefið eftir,“ segir Óskar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert