„Þetta var rosalega óþægilegt“

Mikil eyðilegging hefur átt sér stað í Katmandú, höfuðborg Nepal, …
Mikil eyðilegging hefur átt sér stað í Katmandú, höfuðborg Nepal, eftir skjálftann. AFP

„Það var mikill léttir að heyra frá þeim,“ segir Inga Rós Antoníusdóttir, en sonur hennar er í hópi ungmenna sem staðsett eru í Nepal þar sem öflugur jarðskjálfti reið yfir í morgun. Það var fyrst núna um hádegið sem ungmennin gátu látið vita af sér og að þau væru óhult, en þá höfðu Inga Rós og eiginmaður hennar reynt að fá upplýsingar um afdrif þeirra í fimm klukkustundir.

„Það var auðvitað rosalega óþægilegt að ná ekki í þau og fá ekki staðfest að það væri í lagi með þau á meðan maður sá myndir af hræðilegu ástandi þarna á svæðinu,“ segir Inga Rós, en hópurinn hafði verið í sex daga gönguferð í Nepal þegar skjálftinn varð. „Maður vissi þó að þar sem þetta gerðist að degi til væru yfirgnæfandi líkur á því að þau væru úti á göngu og þar af leiðandi væru mun meiri líkur á því að það væri í lagi með þau.“

Hús leiðsögumannanna hrundu

Hópurinn samanstendur af syni Ingu Rósar og vini hans og tveimur vinkonum þeirra, en þau eru öll um tvítugt. Vinirnir eru í tveggja mánaða leiðangri um suðaustur-Asíu, og höfðu hitt vinkonur sínar úr menntaskóla á leiðinni. Þau höfðu svo skipulagt að ferðast saman um tíma og eru stödd í Nepal núna.

Ungmennin áttu tvo daga eftir af gönguferðinni, en það breyttist skyndilega þegar jarðskjálftinn reið yfir í hádeginu. „Leiðsögumennirnir þeirra fréttu að húsin sín heima væru hrunin svo það var ákveðið að leggja strax af stað til Pokhara,“ segir Inga Rós, en sú borg kom næst verst út úr skjálftanum á eftir höfuðborginni Katmandú.

Erfitt að heyra ekkert

Inga Rós segir eiginmann sinn hafa vakið sig með fréttum af skjálftanum snemma í morgun og í kjölfarið hafi þau farið á fullt í upplýsingaöflun. „Við erum búin að sitja hérna og tvíta, skrifa og hringja út í eitt. Þetta hefur verið eins og fréttastofa hérna við eldhúsborðið,“ segir hún, en þau hjón eru vel tengd út í heim og notuðu Twitter óspart til að afla sér upplýsinga um stöðu mála.

„Það vakti strax athygli okkar að það voru engin tvít að koma af því svæði sem þau áttu að vera. Það var alveg slatti af tvítum frá Katmandú en ekkert frá nákvæmlega þessu svæði. Það var bæði jákvætt og neikvætt; auðvitað var erfitt að heyra ekkert þaðan, en við vissum að það þýddi að síma- og netlínur lægju niðri,“ segir Inga Rós.

Þá voru hjónin í stanslausu sambandi við utanríkisráðuneytið, sem hafði samband við sendiherrann á Indlandi og reyndi að afla frekari upplýsinga. „Sendiherrann á Indlandi reydi að hafa samband við Nepal en símtalið slitnaði alltaf svo það var erfitt að fá frekari upplýsingar.“ Hún segir utanríkisráðuneytið þó eiga hrós skilið fyrir góða upplýsingaöflun, en þau hafi gert sitt besta til að láta fjölskyldur ungmennanna fylgjast með af fremsta megni.

Mikill léttir að fá góðu fréttirnar

Inga Rós segir það hafa verið mikinn létti þegar vinkona sonarins sendi loks skilaboð á Facebook þar sem hún sagði hópinn vera kominn á hótel og allir væru heilir á húfi. Hún segir það einu upplýsingarnar sem þau hafi fengið, þar sem símasamband er enn ekki komið á. „Við hlökkum auðvitað til að heyra í syni okkar en aðalatriðið er að þau séu komin á öruggan stað. Þá eru meiri líkur á að þau komist í samband og hitt algjört aukaatriði,“ segir hún. „Það skiptir öllu að þau séu heilu og höldnu.“

Þá hafi það skipt sköpum fyrir foreldrana að hafa haft nákvæma ferðaáætlun hópsins og nöfn allra í ferðinni og foreldra þeirra. „Við báðum son okkar um að senda þetta allt á okkur áður en hann lagði af stað því við vissum að ef eitthvað gerðist yrðum við að geta haft samband. Það átti enginn von á því að þetta myndi svo gerast, en við vorum greinilega ekki bara að vera taugaveiklaðir foreldrar,“ segir hún og hlær.

Munu seint gleyma reynslunni

Ungmennin hyggjast fara áfram til Kína á næstu dögum, en þegar þau skrifuðu á Facebook voru þau þó ekki búin að gera sér grein fyrir því að flugvöllurinn í Katmandú er lokaður. Honum var lokað fyrr í dag bæði til að meta ástandið og til að hleypa að flugvélum með hjálpargögn.

„Við höfum fengið þau ráð þeim til handa frá fólki sem er þarna á svæðinu að reyna að fara landleiðina til Indlands með bíl og komast út úr Nepal,“ segir Inga Rós. „Mér skilst að það eigi að vera hægt, en þetta er auðvitað ennþá allt að skýrast.“

Þá segir hún þetta vissulega hafa verið afar óvænta reynslu, sem ungmennin muni líklega aldrei gleyma. „Maður hélt að ferðin í sjálfri sér yrði lífsreynsla fyrir lífstíð, en maður átti ekki alveg von á þessu og þau allra síst.“

Frétt mbl.is: Íslensku ung­menn­in í Nepal óhult

Frétt mbl.is: Mann­skæður jarðskjálfti í Nepal

Hátt í þúsund eru taldir hafa látist í skjálftanum.
Hátt í þúsund eru taldir hafa látist í skjálftanum. AFP
Margar byggingar í Nepal eru rústir einar.
Margar byggingar í Nepal eru rústir einar. AFP
Sögufrægi Darahara turninn í Katmandú er meðal bygginga sem hrundu …
Sögufrægi Darahara turninn í Katmandú er meðal bygginga sem hrundu í skjálftanum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert