Tveir árgangar útskrifast 2018

Væntanlega útskrifast helmingi fleiri nemendur á árinu 2018.
Væntanlega útskrifast helmingi fleiri nemendur á árinu 2018. Ómar Óskarsson

Nemendur sem hefja nám í framhaldsskóla nú í haust munu ljúka stúdentsprófi á þremur árum í stað fjögurra. Samtímis er aðalnámskrá framhaldsskóla að fullu innleidd. Þessi breyting felur í sér að væntanlega útskrifast helmingi fleiri nemendur á árinu 2018 þar sem tveir árgangar útskrifast.

Samráð við ráðuneyti

Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs hjá Háskóla Íslands, segir skólann ekki hafa gert neinar sérstakar ráðstafanir til að bregðast við þessum tvöfalda árgangi stúdenta sem mun útskrifast 2018.

„Í raun eru ekki hafnar neinar ráðstafanir að öðru leyti en að það er búið að vera samráð við ráðuneytið og við fundum reglulega með forystumönnum framhaldsskólanna. Við reynum að átta okkur í sameiningu á því hvernig þetta gerist og hvaða áhrif þetta muni hafa á inntak námsins og fjölda nemenda. Rætt er um innleiðingu á þessari nýju námskrá og hvort hún feli í sér nægan undirbúning fyrir háskólanám,“ segir Þórður.

Námið efnislega hið sama

Þórður segir engar sérstakar breytingar vera í skoðun varðandi inntak háskólanámsins. Fjöldatakmörkun innan deilda skólans hafi ekki verið rædd að svo stöddu og kveðst Þórður ekki gera ráð fyrir breytingum hvað þær varðar. Í dag eru fjórar deildir háskólans með inntökupróf. Eins og staðan er í dag virðast því helmingi fleiri nemendur þurfa að keppa um jafnmörg pláss árið 2018.

Þórður segir þó nauðsynlegt að skoða stöðuna betur þegar nákvæmar tölur um nemendafjölda sem útskrifist á þessu tímamarki komi í ljós. „Reynt er að beita ekki fjöldatakmörkun bara út af þessu. Fjöldatakmörkun byggist á allt öðrum forsendum. Hún byggist á því hvort við getum og höfum aðstæður til að sinna öllum nemendunum,“ segir Þórður og bendir á að nemendur þurfi til að mynda þjálfun inni á spítölum og heilsugæslustöðvum og fjöldi nemenda verði því að taka mið af aðstöðu og öðrum ytri þáttum.

Hann bendir þó á að það sé ákveðin viðleitni hjá deildum með fjöldatakmörkun að taka sífellt fleiri í háskólanám og nefnir þar sérstaklega að hjúkrunarfræði- og læknisfræðideild hafi verið að hleypa fleiri nemendum í gegnum inntökupróf. Þórður getur ekki svarað því hvort nemendafjöldi í deildum sem ekki hafa inntökupróf muni breytast. Allar deildir hafi áhuga á að taka inn sem flesta.

Hinir háskólarnir eru meðvitaðir um stöðuna en engar ráðstafanir eða breytingar hafa verið ákveðnar hjá þeim. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert