Vilja hafa vaðið fyrir neðan sig

Hjólreiðar hafa aukist hér á landi síðustu ár.
Hjólreiðar hafa aukist hér á landi síðustu ár. mbl.is/Rax

Hjólaframleiðandinn Trek hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að pinnar, sem notaðir eru til þess að herða dekk, geti fests í hjóladiskum. Samkvæmt yfirlýsingunni getur það valdið því að hjólin læsist og slys orðið í kjölfarið. 

Í frétt NBC um málið kemur fram að það þurfi að skipta út pinnum á um það bil milljón hjólum frá framleiðandaum, eða 900 þúsund hjólum í Bandaríkjunum og 98 þúsund í Kanada.

Í frétt NBC kemur jafnframt fram að hjólareiðamenn hafa slasast vegna þessa og einn alvarlega. Hann er nú lamaður.

Pinnar sem eiga alltaf að vera lokaðir

„Þetta hljómar kannski mun alvarlegra en þetta er. Þetta er ekki galli sem slíkur en þetta snýst um pinna sem geta opnast of mikið. Þessir pinnar eiga alltaf að vera lokaðir, það er stórhættulegt að hjóla með þá opna og það er þannig á öllum hjólum,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, sölustjóri Arnarins, sem selur Trek hjól á Íslandi. Að sögn Ragnars getur hjólið farið undan er pinninn er opinn.

Að sögn Ragnars voru gerðar ráðstafanir vegna pinnanna á síðasta ári hjá Erninum. „Það sem er nóg að gera er að taka pinnann út og setja sveifina hinu megin, semsagt vinstra megin við hjólið. Síðasta árið höfum við gert það á öllum okkar hjólum, því ef sveifin er vinstra megin getur þetta ekki gerst,“ segir Ragnar og bætir við að tilkynningin sé gerð að frumkvæði Trek. „Þeim er ekki skipað að gera þetta en mér finnst líklegt að önnur hjólamerki muni fylgja eftir,“ segir Ragnar sem bætir við að Trek framleiði ekki pinnanna sjálfa. 

Engin hætta á ferðum

„Þetta er eingöngu gert af frumkvæði Trek, þetta er ekki flokkað sem galli en þeir vilja hafa vaðið fyrir neðan sig,“ segir Ragnar en fljótlega mun Örninn fá um þúsund pinna senda að utan. „Í næstu viku fáum við líklega nægilega mikið magn til þess að taka á móti fólki og skipta um þessa pinna,“ segir Ragnars.

Að sögn Ragnars er það í sjálfu sér nóg að færa pinnanna vinstra megin. „En þau hjá Trek vildu leysa þetta svona og borga fyrir þetta. Viðskiptavinum okkar sem er á Trek hjólum er velkomið að koma eftir næstu viku og fá nýjan pinna,“ segir Ragnar en miðað er við þá sem hafa keypt Trek hjól hjá Erninum eftir árið 2000. 

Ragnar leggur áherslu að það sé engin hætta á ferðum og er útilokað að þetta geti gerst á nýjum hjólum. „En við munum að sjálfsögðu fylgjast vel. Við erum í nánu samstarfi við Trek og bíðum eftir að fá nýju pinnanna. Það er alltaf hættulegt að vera með laust framdekk á hjóli þegar pinninn er opinn. Þetta getur þó aðeins gert ef pinnarnir eru óhertir og það er afar ólíklegt á flestum hjólum.“

Ragnar Þór Ingólfsson, sölustjóri Arnarins.
Ragnar Þór Ingólfsson, sölustjóri Arnarins. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert