Yfir 300 börn í fóstri á hverjum tíma

Fjöldi barna, sem þurfa varanlegt fóstur, hefur farið vaxandi.
Fjöldi barna, sem þurfa varanlegt fóstur, hefur farið vaxandi. mbl.is/Eggert

Barnaverndarstofa auglýsti nýlega eftir fósturforeldrum. Að sögn Bryndísar S. Guðmundsdóttur og Guðjóns Bjarnasonar, sérfræðinga á Barnaverndarstofu, sem umsjón hafa með fósturmálum, eru ekki mörg börn á biðlista eftir því að komast á fósturheimili. Hins vegar skiptir miklu máli að Barnaverndarstofa hafi alla jafna aðgang að fjölda fósturforeldra umfram þörf hverju sinni, enda mikilvægt að hægt sé að finna börnum á ólíkum aldri og með mismunandi þarfir hentug heimili.

Fjöldi umsókna um að gerast fósturforeldrar hefur aukist nokkuð á síðustu árum. Árið 1996 voru umsóknir til Barnaverndarstofu 51 en þær voru 69 árið 2013. Fjöldi barna, sem þurfa varanlegt fóstur, hefur farið vaxandi. Um er að ræða 17-20 börn á ári en áður þurftu að jafnaði um 10 börn á fóstri að halda. Börnin eru allt frá því að vera nýfædd upp í 15 ára gömul og jafnvel eldri. Tilvikin eru oftast mjög ólík.

Fósturráðstafanir hérlendis eru á annað hundrað á ári hverju en yfir þrjú hundruð börn eru í fóstri á hverjum tíma. Guðjón og Bryndís segja ýmsar skýringar geta verið á því að þörf fyrir varanlegt fóstur fer vaxandi en vísbending sé þó um aukna neyslu fíkniefna og óreglulegt líferni hjá foreldrum ungra barna sem valdi varhugaverðum eða skaðlegum óstöðugleika og óöryggi. Með fósturráðstöfunum er átt við bæði tímabundið fóstur, varanlegt fóstur og styrkt fóstur en það síðastnefnda er úrræði fyrir börn með verulega hegðunarerfiðleika vegna geðrænna, tilfinningalegra eða annarra vandamála.

Flókið að finna unglingum varanlegt fóstur

Eins og fram hefur komið hefur umsóknum frá þeim sem vilja gerast fósturforeldrar fjölgað en um leið hefur umsækjendahópurinn tekið breytingum. Á undanförnum árum hafa fleiri sótt um að gerast varanlegir fósturforeldrar ungra barna. Guðjón segir almennt ekki vandamál að finna fósturforeldra fyrir lítil börn en þegar um ræðir unglinga, sérstaklega ef um ræðir margþættan vanda barnanna, þá flækist málin. Barnaverndarstofa fæst mjög oft við þá stöðu að vera með barn sem kann að hafa þörf fyrir tímabundið fóstur í byrjun en síðar kemur á daginn að ráðstöfunin þarf að vera varanleg. Þetta á sérstaklega við þegar um ræðir ung börn.

Heldur hefur fækkaði í hópi þeirra sem sækjast eftir að taka börn í tímabundið fóstur. Guðjón og Bryndís telja ýmislegt geta skýrt það. Áður var mjög algengt að börn færu í sveit en nú er talsvert minna um það. Þau telja þó enn þörf á fósturheimilum í sveit en einnig æskilegt að heimilin séu nálægt þéttbýli og helst þeim skólum þar sem börnin hafa stundað nám við fyrir fósturráðstöfun eða hæfa þeim vel að öðru leyti. Rannsóknir Svía hafa leitt í ljós að vel heppnuð skólaganga skipti hvað mestu varðandi velferð fósturbarna.

Þörf er á fleiri fósturforeldrum sem geta tekið börn í styrkt fóstur þar sem umsóknum fyrir börn með margþættan vanda hefur fjölgað. Guðjón og Bryndís segja að milli 20 og 30 börn séu í styrktu fóstri á hverjum tíma. Þar er um að ræða börn með miklar þarfir og eiga við mikinn vanda að etja. Þessi tilvik eru afar erfið úrlausnar þar sem annað fósturforeldra þarf að gefa sig að fullu í verkefnið.

Skortur á vistheimilum

Að mati Bryndísar og Guðjóns er undirbúningur fósturs gjarnan fullskammur. Þegar börn þurfa að yfirgefa heimili sín skyndilega þarf að vera fyrir hendi vistheimili þar sem hægt er að vista börnin á meðan unnið er að því að finna fósturheimili, undirbúa fósturforeldra, barnið sjálft og kynfjölskyldu þess fyrir flutning.

„Að mínu viti þyrftu aðstæður barnaverndarnefnda almennt að vera betri til að undirbúa fósturráðstafanir. Til að mynda væri æskilegt að barnaverndarnefndir hefðu greiðari aðgang að vistheimilum í aðdraganda fósturs,“ segir Bryndís. Það er nefnilega vandasamt og flókið ferli að finna rétta foreldra handa barni. Barnaverndarstofa skoðar t.d. hvers konar fósturráðstöfun verði líklegust, bakgrunn barns, hegðun, áhugamál, greiningar og ýmsa fleiri þætti. Þessir þættir þurfa að fara vel saman við þætti í fari fósturforeldra, s.s. viðhorf fósturforeldra, vinnu, staðsetningu og húsakynni, fjölskyldugerð, stuðning, hæfni og annað. Mikilvægt er að rétt ákvörðun sé tekin um fósturheimili, þess vegna þarf að vera aðgengilegt pláss í umhverfi þar sem hægt er að kynnast barni og aðstæðum þess vel.

Erfiðara reynist að finna unglingum varanlegt heimili en börnum.
Erfiðara reynist að finna unglingum varanlegt heimili en börnum. mbl.is/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert