Blint, skafrenningur og sandrok

Sérstaklega verður blint og kóf á fjallvegum austan Eyjafjarðar.
Sérstaklega verður blint og kóf á fjallvegum austan Eyjafjarðar. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Með hvassri N-áttinni fylgja él eða ofanhríð og skafrenningur í allan dag á Norður- og Austurlandi. Sérstaklega verður blint og kóf á fjallvegum austan Eyjafjarðar, austur á Firði.

Einnig skefur á heiðum á Vestfjörðum og éljagangur yfir Holtavörðuheiði. Suðaustanlands frá Höfn austur í Berfjörð er reiknað með hviðum 30-40 m/s og sandfoki. Á Skeiðarársandi og Mýrdalssandi er einnig viðbúið að sandfok verði síðar í dag.

Færð og aðstæður

Vegir eru greiðfærir að heita má um allt sunnanvert landið.

Á Vesturlandi er snjóþekja og skafrenningur á Bröttubrekku og hálkublettir og skafrenningur á Holtavörðuheiði en hálkublettir og skafrrenningur á Fróðárheiði. Snjóþekja er á Svínadal.

Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja. Þungfært er í Árneshrepp en ófært er á Klettshálsi, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði.

Það er hálka og snjóþekja og sumstaðar skafrenningur og éljagangur á Norðurlandi, einkum þegar komið er austur fyrir Skagafjörð. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Siglufjarðarvegi, Hólasandi og Dettifossvegi.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum og sumstaðar stórhríð. Ófært og stórhríð er á Fjarðarheiði og ófært og óveður á Vatnsskarði eystra.
Öxi og Breiðdalsheiði eru ófærar. Mikið hvassviðri er í Hvammsfirði og gæti orðið sandfok með deginum á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert