Drónar sveimuðu yfir hlaupurum

Aníta kom fyrst í mark í kvennaflokki.
Aníta kom fyrst í mark í kvennaflokki. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Hundraðasta Víðavangshlaup ÍR fór fram veðurblíðunni í Reykjavík á fimmtudag. Hlaupið þótti takast vel til og voru hlauparar ánægðir með nýju hlaupaleiðina sem liggur í gegnum miðbæinn. Hlaupið var það langfjölmennasta í sögunni en 1.171 hlaupari lauk hlaupinu.

Athygli vakti að drónar sveimuðu yfir svæðinu á meðan á hlaupinu stóð. Samkvæmt upplýsingum frá Ingu Dís Karlsdóttur, einum af forsvarsmönnum hópsins, voru tveir drónar notaðir til að taka upp myndskeið til minningar um hlaupið.

Inga Dís segir að skipuleggjendurnir hafi séð myndskeið sem tekið var í Gullsprettinum síðastliðið sumar og viljað skjalfesta Víðavangshlaup ÍR á sama hátt. 

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/UOWbXr4gDK0" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>

Sveimuðu í 10 til 40 metra hæð

Félagarnir Rúnar Gunnarsson, eigandi fyrirtækisins Þríbrots ehf., sá um upptökuna á hlaupinu á fimmtudaginn ásamt félaga sínum, Vigni Má Garðarssyni. Rúnar og Vignir notuðu tvo dróna með áföstum GoPro-myndavélum til að mynda hlaupið. 

Ekki var búið að forrita drónana heldur notuðu félagarnir fjarstýringar með skjá til að stýra þeim. Rúnar segir að þeir noti alltaf fingurna og augun þegar þeir taka upp á þennan hátt. „Maður vill hafa fullkomna stjórn á þessu,“ segir hann í samtali við mbl.is. 

Rúnar og Vignir hafa tekið að sér nokkur verkefni af þessu tagi, þar á meðal hlaup og kraftakeppnir. Rúnar segir þá nota dróna sem eru passlega litlir þannig að þeir komist þangað sem þeir vilji og skapi litla hættu ef eitthvað fer úrskeiðis. 

Rúnar keypti fyrsta drónann fyrir um ári síðan og heillast strax af tækninni. Hann segir að tiltölulega auðvelt sé að taka á loft og fljúga um. Æfingin skapi þó meistarann og er sérstaklega mikilvægt að æfa sig ef ætlunin er að fljúga drónanum í nágrenni við fólk. 

Hægt er að láta drónana fljúga nokkuð hátt og hefur Rúnar hæst farið hátt í hálfan kílómetra upp í loftið. Drónarnir sem sveimuðu yfir hlaupasvæðinu á fimmtudaginn voru þó aðeins í um 10 til 40 metra hæð. 

Rúnar gerir ráð fyrir að fleiri muni nýta sér tæknina á næstunni til að mynda hlaup og aðra íþróttaviðburði. Þeim félögunum bíða nokkur verkefni í sumar. 

Hér má sjá brot úr myndskeiðinu úr hlaupinu á fimmtudaginn: 

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/nW-mzbltvZ0" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>

Njóta mikilla vinsælda 

Drónar, eða svokölluð flygildi, hafa notið mikilla vinsælda að undanförnu. Margir ljósmyndarar hafa komist upp á lag með að nota tæknina til að ná sjónarhornum sem erfiðara var að ná áður. Nokkrir drónar sveimuðu yfir Skeifunni þann 6. júlí síðasta sumar þegar stórbruni varð í Skeifunni og má hér sjá afrakstur eins ljósmyndara:

Ekki eru allir ánægðir með drónana og víða erlendis hafa verið sett lög sem takmarka dróna á tilteknum svæðum. 

Kjarninn greindi nýlega frá því að Þingvallanefnd hefði falið þjóðgarðsverði að leita eftir samvinnu við Flugmálastjórn til að reyna að takmarka svokallað „ónæðisflug“ í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þá vill nefndin að „dróna-flug“ verði bannað í þjóðgarðinum.

Þurfa heimild ef drónninn er þyngri en 5 kíló

Samgöngustofa hefur haft í smíðum drög að reglugerð um ómönnuð loftför, eða svokallaða dróna og notið til þess samstarfs við fjölmarga hagsmunaaðila. Er sá áfangi vinnunnar nú á lokametrunum og verða drögin því á næstunni send innanríkisráðuneytinu sem setur þau í formlegt umsagnarferli. Stefnt er að því að reglugerðin verði tilbúin í sumar. Þetta kemur fram í skriflegu svari Samgöngustofu til mbl.is.

Nálgun nýrra reglna um ómönnuð loftför byggist á áhættu af notkun þeirra og munu taka mið af því hvort um tómstundaflug eða atvinnuflug verður að ræða.

Þar til sértækar reglur hafa verið samþykktar gilda almenn loftferðalög um ómönnuð loftför. Á grundvelli þeirra þarf að sækja um heimild til Samgöngustofu vegna  flugs ómannaðra loftfara sem eru 5 kíló eða þyngri og leggja sérfræðingar Samgöngustofu mat á m.a. hæfni og þjálfun umsækjenda um flug þyngri loftfara.

Sjá nánar upplýsingabréf á vef Samgöngustofu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert