Marco Evaristti fór frá Íslandi án þess að borga

Strokkur gaus bleiku á föstudag.
Strokkur gaus bleiku á föstudag. Ljós­mynd/face­book.com/​pages/​Marco-Evarist­ti

„Ég borgaði ekki,“ segir listamaðurinn Marco Evarist­ti en hann hélt af landi brott í morgun án þess að greiða sekt sem hann fékk frá lögreglunni á Suðurlandi. Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is og segist hann ætla að fara með málið fyrir dómstóla.

Misvísandi upplýsingar bárust frá tveimur lögregluembættum eftir að greint var frá því að Evaristti ætlaði ekki að greiða 100 þúsund króna sekt sem hann fékk fyrir að raska nátt­úru Íslands. Foss­ar, hver­ir og aðrar heit­ar upp­sprett­ur, svo og hrúður og hrúður­breiður, 100 m2 að stærð eða stærri njóta sér­stakr­ar vernd­ar í lög­um um nátt­úru­vernd frá ár­inu 1999.

Frá lögreglunni á Suðurnesjum bárust þær upplýsingar í gærkvöldi að Evaristti yrði stöðvaður í Leifsstöð ef hann gæfi sig ekki fram til lögreglu vegna sektarinnar. Lögreglan á Suðurlandi frá sér tilkynningu stuttu síðar þar sem sagði að Evaristti væri frjáls ferða sinna og heim­il brott­för af land­inu óháð því hvort hann myndi gera upp sektina áður en hann yfirgæfi landið, eða ekki.

Fagnaði 50 ára afmælinu í yfirheyrslu hjá lögreglu 

Þegar mbl.is bar undir Evaristti hvort lögregla hefði haft afskipti af honum í Leifsstöð segir hann svo ekki vera. Hann vissi ekki að umræða hefði farið fram í gær um það hvort ætti að handtaka ef hann gæfi sig ekki fram til lögreglu við brottför. Hann segist ekkert hafa fylgst með fjölmiðlum í gær þar sem hann fagnaði fimmtíu ára afmælisdegi sínum. 

„Ég eyddi hluta af deginum í yfirheyrslu hjá lögreglunni. Þeir voru mjög almennilegir,“ segir Evaristti um þennan undarlega 50 ára afmælisdag. Hann segist hafa orðið var við umræðuna sem hefur farið fram á samfélagsmiðlum um uppátæki hans. Margir eru mjög ósáttir við gjörninginn á sama tíma og aðrir segja þetta vera skemmtilegt í ljósi þess að þetta hafi ekki haft skaðleg áhrif á umhverfið.

Hann segist ekki hafa orðið fyrir neinu aðkasti hérlendis þrátt fyrir sterkar skoðanir fólks á uppátækinu. Hann telur skýringuna vera þá að fæstir þekki hann í sjón. Nokkrir Íslendingar báru þó kennsl á hann í gær þegar hann hélt upp á afmælið á veitingahúsi. Hrósuðu þeir honum fyrir uppátækið að hans sögn.

Aðspurður hvort hann hyggist snúa aftur til Íslands, segir hann að engin spurning sé um það. Þá sérstaklega í ljósi þess að hann ætli með sektina fyrir dómstóla.

Markmið gjörningsins var að vekja fólk til umhugsunar um umhverfið og ítrekar hann það sem fram hefur komið í fyrri fréttum um að ávaxtaliturinn hafi ekki haft nein skaðleg áhrif á hverinn, svo vitað sé til, og sé hann nú þegar horfinn.

Marco Evaristti er listamaðurinn sem lét Strokk gjósa bleiku við …
Marco Evaristti er listamaðurinn sem lét Strokk gjósa bleiku við sólarupprás á laugardag. Ljós­mynd/face­book.com/​pages/​Marco-Evarist­ti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert