Gaf svartsvanapari brauð að borða

Svart svanapar.
Svart svanapar. Ljósmynd/María Björg Gunnarsdóttir

María Björg Gunnarsdóttir, fuglaáhugamaður og áhugaljósmyndari úr Kópavoginum, náði í gær myndum af svörtum svönum á Mýrdalssandi.

Hún segir svanina hafa verið ákaflega gæfa. „Þeir voru alls ekkert smeykir og virtust hinir ánægðustu. Ég gaf þeim brauð og þeir komu nánast alveg að mér,“ segir hún og bætir við að það yrði afar skemmtilegt ef parið ákvæði að verpa þarna.

„Ég var búin að heyra af þeim svo ég fór og leitaði að þeim,“ segir María en hún fékk góðar leiðbeiningar frá heimamönnum sem höfðu bent henni á að svanaparið væri á tjörn, skammt frá afleggjaranum að Mýrdalsjökli.

María segir mjög mikið fuglalíf á Suðurlandi þessa stundina. „Ég hef aldrei séð eins mikið af gæs og lóum eins og er á Suðurlandi núna. Þetta er í haugum.“

Svanaparið var ákaflega gæft að sögn Maríu Bjargar.
Svanaparið var ákaflega gæft að sögn Maríu Bjargar. Ljósmynd/María Björg Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert