Kisur sjá um óskilamuni í Hlíðunum

Púffulína og Nala taka hlutverk sín alvarlega.
Púffulína og Nala taka hlutverk sín alvarlega. Árni Sæberg
Þær Púffulína og Nala virðast hafa lagt á ráðin með það að taka til í Hlíðunum í kringum Ísaksskóla þar sem þær búa. Önnur sér um að tína rusl, hin sér um að tína saman spjarir á víðavangi. Raunar búa þær með þremur öðrum köttum og tveim hundum, hersing sem fer saman í göngutúr á morgnana. En Púffulína og Nala eru þær sem eru þó í framlínunni með að taka til hendinni í hverfinu.

„Púffulína kemur heim með vettlinga, húfur, trefla og jafnvel flíspeysur. Hún hefur komið með par af vettlingum en þá sinn vettlinginn í hvorri ferðinni. Hún hefur kennt öðrum köttum á heimilinu þetta en það er samt enginn eins duglegur í að safna saman fatnaði og Púffulína. Suma daga er garðurinn hér fullur af fatnaði sem hún hefur dregið heim og garðurinn minnir einna helst á flóttamannabúðir,“ segir Arna Þorsteinsdóttir, eigandi tiltektarkattanna í Hlíðunum.

Skiljanlega getur ýmis fatnaður lent í óskilum í kringum skóla en Arna fer reglulega og skilar í skólann því sem Púffulína hefur dröslað heim.

„Það merkilega er þó að eftir að ég er búin að skila fatnaðinum líður ekki á löngu þar til Púffulína er komin aftur heim með eitthvað af því sem ég hafði skilað.“

Hún Nala sér hins vegar um að tína rusl saman sem má svo fara beint í tunnuna en eins og iðinn sorphirðir dregur hún alls kyns plastumbúðir heim, jafnvel heilu plastboxin og ef umbúðirnar hafa reynst henni of stórar til að draga í kjaftinum hefur hún brugðið á það ráð að skella plastboxum einfaldlega um hausinn á sér og hlaupa þannig með þær heim til Örnu sem fargar því að sjálfsögðu.

Kettirnir eru afskaplega rólegir þrátt fyrir að búa í stórum systkinahópi dýra og samkomulagið er upp á það besta. Hundum og köttum lendir aldrei saman og á hverjum morgni fer öll hersingin saman í göngutúr, það er að segja kettirnir fara með út að ganga þegar hundarnir eru viðraðir.

Áfram gakk, eigendur

Aþena með fjölskyldu sinni.
Aþena með fjölskyldu sinni.



Hún Aþena er hörð á því að eigendur hennar fari með hana í 1,3 kílómetra göngutúr á hverjum degi og verður ómöguleg ef þau ganga ekki alltaf sömu leið. Það er að segja; Þau Jón Heiðar Þorsteinsson, Hallveig Rúnarsdóttir og dóttir þeirra, Ragnheiður Dóra Jónsdóttir, verða að fylgja ákveðinni leið.

Gengið er frá heimili þeirra að Ásgarði í Fossvoginum niður í Langagerði, allt Langagerðið að Réttarholtsvegi, upp þá götu og svo aftur sömu leið til baka.

Þessa leið verður að fara á hverjum degi, sama hvernig viðrar, og ef fjölskyldan gerir sig líklega til að ætla ekki að fara út, ef það er til dæmis vetrarlægð, er Aþena ekki lengi að láta Jón Heiðar vita að hann skuli fara með hana út sama hvað tautar og raular. Fyrst spjallar hún heilmikið við hann, kvartar og leggur loppurnar á hann ef hann hlustar ekki. Það er því helst Jón Heiðar sem situr í súpunni með göngutúrinn ef Hallveig og Ragnheiður vilja fremur vera inni.

„Þetta þróaðist hægt og bítandi, hún hefur alltaf elt okkur og verið til vandræða ef við förum út í Hagkaup og slíkt en við höfum séð við því. Svo var það þessi göngutúr okkar sem hún varð svona hrifin af og það má ekkert breyta út af því í dag. Við ætluðum einu sinni að fara í öfuga átt en þá kvartaði hún alla leiðina,“ segir Hallveig og bætir við að þau séu þekkt í hverfinu sem skrýtna fólkið með köttinn í göngutúr.

Aþena er óvenjuleg að því leyti að hún spjallar afar mikið. Þegar hún kemur inn byrjar hún strax að tala við heimilisfólkið og notar mikið af mismunandi hljóðum, til að tjá hvað hún á við, sem eigendurnir eru farnir að þekkja. Hún getur talað tímunum saman og það bætast stöðugt ný hljóð í mál hennar.

Vill fín vín og bíltúra

Merlín og Lúkas njóta þess að keyra um Vestfirði.
Merlín og Lúkas njóta þess að keyra um Vestfirði.



Merlín er persaköttur sem líkist þó ekki neinum persaketti sem Anna María Moestrup hefur kynnst og hefur hún átt þá ófáa.

Þegar hún var nýbúin að festa kaup á kisa áttaði sig hún á því að þetta væri skrýtin skrúfa og hringdi meira að segja í þann sem seldi henni köttinn með erindið; „Hvað varstu eiginlega að selja mér?“

Merlín drekkur hvítvín ef hann kemst í það og elskar það, hann borðar gráðosta og er þannig séð fágaður persi þótt yfirleitt sé matarsmekkur þeirra ekki svona uppbyggður. En þá vill hann líka njóta lífsins. Hann og bróðir hans Lúkas rúntuðu um Vestfirðina síðasta sumar með eigendum sínum. Þeir sátu milli eigenda sinna í ólum eða dandöluðust aftur í. Merlín nær að opna allar skúffur, hurðar og getur nær allt sem hann vill gera. Í miðjum Vestfjarðabíltúr rak Anna María upp óp þegar hún áttaði sig á því að Merlín var með hausinn út um gluggann og lét vindinn leika um sig í roknastuði eins og unglingur. Hún skammaði bóndann fyrir að opna gluggann en það var þá Merlín sjálfur sem hafði rennt rúðunni niður. Það var keyrt með barnalæsinguna á það sem eftir lifði ferðir. En uppátæki hans hafa líka næstum kostað hann lífið.

„Það bjóst enginn við þessum ketti enda átti ég annan kött fyrir sem er bróðir hans, Lúkas, og er dæmigerður, prúður og fínn persneskur köttur,“ segir Anna María sem hefur eytt yfir 200.000 krónum í lækniskostnað á rúmu ári en segist ekki telja það eftir sér og myndu aldrei vilja skipta.

„Merlín er ekkert óviðkomandi og krefst stöðugrar athygli. Ef hann fær hana ekki þá hendir hann símum okkar hjóna og fjarstýringum í gólfið. Hann fer í bókaskápana og hendir öllum bókunum á gólfið og fer í alla skápa, skúffur og treður sér alls staðar þar sem hann kemur. Þegar vinkonur mínar voru farnar að hringja daglega og biðja mig um nýjar sögur af Merlín ákvað ég að opna Facebooksíðu handa honum.“

Merlín er hrifinn af skrauti og ljósakrónum sem hann stekkur á með tilheyrandi slysum og hann er líka hrifinn af skrauti og át um 30 sentimetra silkiborða og lenti í uppskurði í kjölfarið. Hann er ekki feigur en hann lifir á brúninni.

En það má ekki taka það af Merlín að hann er yndislegur vinur, að sögn Önnu Maríu, og er mjög meðfærilegur á margan hátt. Hann er duglegur að fara í bað og lætur baða sig reglulega og blása en kann þó betur við baðið sjálft en blásturinn eftir á.

Skrautlegt sambýli katta, kanína og hamstra

Dóra Lena með Snúð og Snældu.
Dóra Lena með Snúð og Snældu.



Halldóra Lena Christians kvikmyndagerðarkona býr í litlum heimagerðum húsdýragarði í 101 Reykjavík, með fjórum hömstrum, tveimur kanínubræðrum sem ganga frjálsir um íbúðina þegar Halldóra er heima við og ekki nóg með það, því á heimilinu eru líka kettirnir Snúður og Snælda.

„Snælda er afskaplega sjálfstæð og fer sjálf í skammarkrókinn þegar hún veit að hún gerði eitthvað rangt eins og að setjast ofan á hamstrabúrin eða reyna að veiða kanínurnar.“

Snúður er prúðari og sefur ofan á Halldóru og nuddar á henni hausinn þangað til hún sofnar. „Það er stundum erfitt að vera með tvær kisur innan um 6 önnur dýr sem í náttúrunni teljast bráð,“ viðurkennir Halldóra en Snúður og Snælda verða brjáluð ef eigandinn lokar sig af með hömstrunum. Stundum fara kettirnir líka í ljónaleik og umkringja kanínurnar, kanínunum til mikils ama.

„Það hjálpaði til að við fengum kettina á eftir kanínunum þannig að oft kúra þau bara saman. En Snúður passar sig að halda uppi stuðinu, hann rústaði til dæmis núna nýlega páskaskreytingunni minni, stal gervigrasinu af henni og gaf kanínunum að borða. Hann ákvað að í staðinn fengi hann salatið þeirra.

Sérstaklega þarf að vakta Snúð á heimilinu því ef það gleymist að loka klósettinu hendir hann leikföngunum sínum þar ofan í.“

Halldóra er mikill dýravinur og á heiðurinn af geysivinsælum Facebookhópum sem heita Gæludýrin okkar sem og hamstra-, naggrísa- og kanínusíðum. Hún segir að hér á landi skorti mikið á fræðslu um umönnun nagdýra og einnig vanti að gæludýraverslanir bjóði upp á vörur fyrir þessar tegundir gæludýra.

„Í gæludýrabúðum eru seld hættuleg hamstrahjól, hættuleg bómull til að hafa í búrinu og jafnvel nagdýrasjampó. Fyrir utan naggrísi er harðbannað að baða bæði hamstra og kanínur. Það getur leitt til sýkinga í húðinni sem getur hreinlega drepið dýrin. Svo er mesti hryllingurinn hamstrabúrin sem eru hér seld. Það sem er kallað ferðabúr úti í Þýskalandi til dæmis er dverghamstrabúr hér á landi. Sem er hræðilegt þar sem hamstrar þurfa miklu meira pláss en við gerum okkur grein fyrir. Kanínur eiga þá að fá að hlaupa um eins mikið og þær geta og því eiga þær alls ekki að vera stöðugt í búrum heima hjá fólki. Það er synd og skömm hvað við erum eftir á varðandi litlu dýrin okkar.“

Kærasti Halldóru smíðaði búrin handa nagdýrunum og unnu þau hörðum höndum að því heila helgi en útkoman er vægast sagt stórkostleg.

Bankar hraustlega á hurðir og glugga

Svarti Pétur er kröfuharður en sérstaklega klár köttur en hann býr um þessar mundir á Álftanesi hjá Guðrúnu Jóhannsdóttur. Það er fyrir neðan hans virðingu að mjálma eða krafsa í hurðir til að komast inn eftir að hafa spókað sig úti. Svarti Pétur bankar hraustlega, eins og hann sé að koma í kvöldheimsókn, á útidyrahurðina eða stofugluggann til að láta vita að hann er kominn heim og það þurfi einhver vinsamlegast að koma til dyra.

„Það var fyrst eitt kvöldið sem hann gerði þetta, þá var hann kominn heim og það var farið að dimma þegar ég heyri að það er allt í einu bankað nokkrum sinnum á gluggann. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort hann þyrfti ekki að eiga farsíma svo hann geti hringt til mín og látið mig vita af ferðum sínum,“ segir Guðrún sem segir Svarta Pétur vera einn sérstakasta kött sem hún hafi á ævi sinni kynnst. Hann hefur þó ekki aðeins látið duga að banka á gluggann þegar hann vill komast inn heldur líka þegar hann vill fara út að leika.

„Þegar hann hefur látið mig hleypa sér út og aftur inn mörgum sinnum á nokkurra mínútna fresti og ég orðin leið á að vera sífellt að opna fyrir honum dyr eða glugga og segi svo ákveðið „Nei“ þegar hann ætlar út í tíunda skiptið á sama klukkutíma skilur hann nei-ið og hættir að rella. Um daginn fann hann hins vegar upp á afar skemmtilegum leik, að því er honum sjálfum fannst. Hann stökk út um opinn glugga á svefnherberginu, hljóp í kringum húsið og bankaði á stofugluggann til að láta mig hleypa sér inn. Strax og hann var kominn inn hljóp hann inn í svefnherbergið og fór út um gluggann þar og kom samstundis aftur á stofugluggann og bankaði til að láta hleypa sér inn. Og hljóp svo strax inn í svefnherbergið og út um gluggann og kom svo og bankaði á stofugluggann. En þar með setti kerlingarvargurinn ég stopp á þennan fjöruga leik og lokaði svefnherbergisglugganum.“

Þótt Svarti Pétur líti svo á að hann eigi bæði húsið, lóðina, hundinn á heimilinu sem heitir Kasper og auðvitað Guðrúnu sjálfa þá er hann í fóstri hjá henni fyrri milligöngu Dýrahjálpar Íslands. Guðrún ákvað að taka hann að sér meðan leitað er að góðu heimili fyrir kisa en hann hafði verið á vergangi á Álftanesi í nokkurn tíma þegar honum var bjargað. Dýrahjálp Íslands er félag sjálfboðaliða sem leitast við að sjá heimilislausum dýrum fyrir heimili og skjóli, bæði dýrum sem þurfa á nýju heimili að halda með skömmum fyrirvara og dýrum sem hafa verið á vergangi. Þess má geta að Dýrahjálp Íslands hefur hingað til aðstoðað 2.307 ketti í heimilisleit, auk fjölda annarra dýrategunda.

Þangað til heimili finnst handa Svarta Pétri er hann í miklu stuði hjá Guðrúnu og hún segist vera eins og tveggja barna móðir þangað til það verður en hundurinn Kasper og Svarti Pétur taka stríðnisköst hvor á annan og hún er sífellt að siða drengina til og stilla til friðar.

Húkkar sér far með dráttarvélinni

Fyrir norðan, í Litlu-Hlíð í Varmahlíð, býr kötturinn Urri músaskelfir sem dvelur ekki í sveit heldur vinnur í sveit og gestir sem koma í heimsókn á bæinn reka upp stór augu þegar þeir sjá köttinn sinna veiði af einstakri snilli, fara í loftköstum á dráttarvélina auk þess sem hann eltir bóndann eins og tryggur hundur. Hann sefur meira að segja í rúmi bóndans, Arnþórs Traustasonar sem býr ásamt Mörtu Maríu Friðþjófsdóttur í Litlu-Hlíð.

„Það vekur ekki aðeins kátínu gesta heldur líka bara íbúa á nágrannabæjunum þegar þeir sjá bóndann með tvo hunda á eftir sér og einn kött en hann fylgir bóndanum alltaf í fjárhúsin og fylgist með verkunum. Við höfum átt marga ketti en Urri er alveg einstakur,“ segir Marta María.

Urri leitar líka mikið til bóndans með aðstoð og er búinn að læra að stjórna honum. Ef hann lendir í vandræðum með að ná í mýsnar sem hann veiðir, þær eru kannski undir spýtu, einhverju plasti eða öðru skokkar hann til hjúa sinna og lætur þau vita með sérstöku mjálmi og leiðir þau svo að staðnum þar sem hann vantar að láta einhvern lyfta dótinu upp.

„Hann sést mjög oft á sumrin þegar verið er að keyra dráttarvélina á milli íbúðarhússins og fjárhússins og hann hlaupandi á eftir. Svo stekkur hann upp á dráttarvélina þótt hún sé á ferð, maður sér hann koma í loftköstum og situr svo í sætinu meðan unnið er í fjárhúsinu. Ef hann er óvart skilinn eftir í fjárhúsinu meðan fólkið fer kannski í kaffi er hann öskuillur þegar við komum til baka og kvartar hástöfum að hafa verið skilinn eftir.“

Urri er reyndar hrifinn af öllum farartækjum og hjólum og ef gestir koma þarf að passa að hann sé ekki með í för þegar keyrt er frá Litlu-Hlíð.

Fær hundinn í lið með sér

Á heimili Steingerðar Steinarsdóttur, ritstjóra Vikunnar, býr kötturinn Matisse, jafnan nefndur Matti, og er sérlega útsjónarsamur. Hann átti erfiða æsku sem Steingerður telur að hafi jafnvel mótað hann svo að hann kunni að redda sér. Hann lifði af mikinn vergang sem kettlingur en þegar hann fannst var móðir hans svo aðframkomin af næringarskorti að það þurfti að svæfa hana. Steingerður tók einn kettlinginn hins vegar að sér.

„Matisse opnar skúffur, skápa og glugga ef hann telur sig þurfa á því að halda. Ég var í vandræðum því hann er vitlaus í harðfisk og ég var að reyna að fela góðgætið fyrir honum en það skipti engu máli hvað ég gerði, hann fann alltaf leið til þefa hann uppi og ná honum. Þegar ég sá að ég gæti geymt hann í efri skápnum með sérstöku handfangi sem erfitt er að opna var hann ekki lengi að finna út úr því hvað hann gæti gert. Hann fékk tíkina Freyju í leið með sér.“

Þau Matti og Freyja vinna þannig saman að Freyja fer inn í stofu, stiklar þar og rekur Steingerði fram í eldhús. Þar situr Matti undir skápnum með harðfisknum og mjálmar eins skrækt og hátt og hann getur. Til þess nægir harðfiskbiti en til þess er leikurinn auðvitað gerður. Með Matta og Freyju býr líka hefðarlæðan Týra en það er fyrir neðan hennar virðingu að taka þátt í þessum ærslalátum hinna sem ræna einnig af henni matnum ef þau geta.

Freyja er enginn eftirbátur Matta í ævintýralegheitum og gerir heimilishaldið býsna skrautlegt með Matta. Þannig hefur hún rifið margar klósettrúllur yfir alla íbúðina þannig að það var eins og hefði snjóað yfir hana alla þegar eigendur komu heim. Sterakremið Mildison sem notast átti við þurrexemi dóttur Steingerðar fékk engan frið fyrir henni, nokkrar túpur voru keyptar en Freyja stútaði þeim jafnóðum og var fjölskyldan sífellt í apótekinu að kaupa nýjar túpur.

„Reglulega birtist dóttir mín þar sem ég var stödd í húsinu og spurði með hyldjúpri ásökun í augunum: Hefur þú fundið einhverjar ónýtar sterakremstúpur nýlega? Ég finn nefnilega ekki sterakremið mitt og ég þarf á því að halda. Yfirleitt var svarið já þótt stundum fyndust túpurnar ekki fyrr einhverju seinna. Nú er dóttirin flutt að heiman og steraát tíkarinnar hefur minnkað að sama skapi.“

Kötturinn með sokkinn

„Hann vill bara þennan eina sokk. Hann verður órólegur ef hann finnur hann ekki en þetta er svona kósísokkur sem ég átti, auðvitað á ég hann ekki lengur, og hann hefur fest eignarhald sitt á honum. Við höfum reynt að láta hann fá aðra sokka en hann bara móðgast við þær tilraunir,“ segir Anna Karen Arnardóttir, 14 ára, eigandi norska skógarkattarins Skugga.

„Þegar hann vill að ég vakni á morgnana, nú eða að hann vill að ég fari að sofa á kvöldin er hann sérstaklega duglegur að dröslast um með sokkinn vælandi.“

Þess má geta að einu sinni týndist sokkurinn í nokkra mánuði og Skuggi var gersamlega í rusli. Hann varð ekki sjálfur sér líkur fyrr en sokkurinn fannst aftur.

Ólíkt mörgum köttum hagar hann sér eins og hundur þegar fólk kemur í heimsókn, hleypur til dyra og hnusar af fólki. Og það er ein regla hér heima. Það má hvergi loka dyrum, þá er allt ómögulegt.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert