Móðir Ingólfs: Veit að hann er heill á húfi

Ingibjörg Ragnarsdóttir, móðir Ingólfs Axelssonar, segir að í hópnum með …
Ingibjörg Ragnarsdóttir, móðir Ingólfs Axelssonar, segir að í hópnum með Ingólfi séu einstaklega færir fjallaklifrarar og efast hún ekki um að hópurinn taki réttar ákvarðanir. mbl.is/Árni

„Þeir sem eiga börn vita hvernig mér líður,“ segir Ingibjörg Ragnarsdóttir, móðir Ingólfs Axelssonar sem er staddur á Everest. Stórt snjóflóð féll niður í grunnbúðir fjallsins í gær í kjölfar skjálfta í Nepal. 

Ingibjörg segist í samtali við mbl.is lítið vita um stöðuna annað en að Ingólfur sé heill á húfi. Hann lét vita af sér í gær símleiðis.

„Við höfum ekkert heyrt í honum nema bara stutt í gærmorgun. Það símtal lét okkur vita að hann og Vilborg væru heil,“ segir hún en Ingólfur er staddur í fyrstu búðum (e. Camp 1) sem eru fyrstu aðlögunarbúðir í um það bil 6 þúsund metra hæð og í átta tíma göngufjarlægð frá grunnbúðum.

Ingibjörg segir að ekkert símasamband sé við búðunum og þar af leiðandi geti hvorki Ingólfur né aðrir látið vita af sér þar. „En þau í grunnbúðunum sjálfum eru að reyna að ná sambandi við fyrstu búðir,“ segir hún. 

Ingólfur er í fimm manna hópi með leiðangursstjóra að nafni Rob Casserley. Ingibjörg segir að Casserley sé mjög vanur og góður leiðangursstjóri. Hún segir að eins séu allir í hópnum einstaklega færir fjallaklifrarar. „Við efumst ekki um að þeir taki algjörlega réttar ákvarðanir,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert