Sendir forseta Nepal samúðarkveðjur

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands. mbl.is/Golli

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur í dag sent samúðarkveðjur frá sér og íslensku þjóðinni til dr. Ram Baran Yadav forseta Nepals vegna hörmunganna sem hinir hrikalegu jarðskjálftar hafa haft í för með sér.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands. 

„Hugur okkar og samúð séu hjá fjölskyldum þeirra sem létu lífið, hinum slösuðu og öllum þeim sem enn leita ættingja og nágranna í rústunum.

Jarðskjálftarnir séu áminning til allra jarðarbúa um kraftinn sem býr í iðrum jarðar og mótar örlög þjóða, kraftinn sem um aldir hefur verið ríkur þáttur í lífi fólksins sem byggir hin tignarlegu en örlagaþrungnu svæði Himalayafjalla.

Íslendingar þekki af eigin raun glímuna við eldfjöll og jökla, afleiðingar jarðskjálfta og snjóflóða og því tökum við af heilum hug höndum saman með öðrum þjóðum við að efla hjálparstarf sem verði æ brýnna með hverjum degi,“ segir í kveðjunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert