Þegar prófkvíðinn tekur völdin

Vorprófin eru framundan hjá mörgum námsmönnum.
Vorprófin eru framundan hjá mörgum námsmönnum. Eyþór Árnason

Vorpróf skólanna eru á næsta leiti. Prófatímabilið getur verið erfitt fyrir marga og í sumum tilvikum nær kvíðinn fyrir þeim svo sterkum tökum að prófin verða nær óbærileg og árangurinn mun slakari en efni standa til.

Orri Smárason er sálfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands og hefur kynnt sér prófkvíða í þaula. Hann segir eðlilegt að finna fyrir ákveðnum streitueinkennum þegar prófin standa yfir en ef kvíðinn er svo mikill að geta nemandans taki að gjalda fyrir þá sé komið upp vandamál.

„Að vera kvíðinn fyrir prófin getur verið ósköp eðlilegt og gagnlegt viðbragð sem hvetur fólk til að undirbúa sig betur og leggja sig allt fram. Þetta er stress sem flestir kannast við og ekki til að hafa miklar áhyggjur af. Það er ekki fyrr en streitustigið er orðið það hátt að það byrjar að skemma fyrir að hægt er að tala um prófkvíða sem þarf að takast á við.“

Skýr líkamleg einkenni

Orri segir einkennin þannig að ekki ætti að fara milli mála hjá þeim sem haldinn er alvarlegum prófkvíða að eitthvað er í ólagi. „Oft koma fram greinileg líkamleg einkenni eins og mjög hraður hjartsláttur eða þurrkur í munni. Fólk getur orðið þvalt á höndum, þurft oft að hafa þvaglát eða hægðir og fengið mikinn hnút í magann.“

Þegar komið er í prófið getur nemandinn verið svo einbeitingarlaus af kvíða að honum gengur mjög illa að svara, og ef hann rekst á spurningu sem hann ræður ekki við getur þyrmt svo yfir nemandann að hann getur ekki með nokkru móti náð sér aftur á strik og tekist á við aðra hluta prófsins.

Þegar námið þyngist

Að sögn Orra geta margir ólíkir þættir legið að baki því að nemendur þróa með sér prófkvíða. „Oft fer einkennanna að verða vart þegar frammistaða í prófunum fer að skipta meira máli upp á framtíðina að gera og getur ákvarðað t.d. hvort nemandinn fær að færast yfir á næsta skólastig eða hlýtur inngöngu í það nám og skóla sem hann hefur augastað á. Sjáum við prófkvíðann yfirleitt koma fram á framhaldsskólaaldri en það getur líka gerst að börn í grunnskóla kenni mikils prófkvíða.“

Orsakirnar geta legið bæði í efðum og umhverfi. „Ákveðnir erfðaþættir gera fólk útsettara fyrir kvíða, og getur það þá birst í hvers kyns kvíðaröskunum, prófkvíða eða annars konar,“ útskýrir Orri. „Við sjáum prófkvíða einnig koma fram hjá krökkum sem eru mjög samviskusamir og gera ríkar og jafnvel óraunhæfar kröfur til sjálfra sín, og finnst alveg óþolandi að gera mistök.“

Þeir sem eiga við námsörðugleika að stríða geta líka farið að kenna mikils prófkvíða. „Þau upplifa próf þá sem mjög neikvæðan hlut, þar sem verið er að gera til þeirra kröfur sem þau standa ekki með nokkru móti undir. Kvíðinn getur þá verið lærður af fyrri reynslu, og verið miklu meiri en raunverulega er tilefni til.“

Skipulag og slökun

Að sögn Orra er alls ekki óvinnandi verk að ná tökum á prófkvíðanum. Agi, undirbúningur og slökunaræfingar geti gagnast mörgum en í alvarlegri tilvikum geti þurft sálfræðimeðferð. Alla jafna er lyfjameðferð ekki notuð við prófkvíða nema í undantekningartilfellum. Í tilviki yngstu nemendanna þurfi foreldrarnir að reyna að hafa auga með börnunum sínum, sjá hvort prófkvíði er mögulega til staðar, og taka svo þátt í því ferli að koma böndum á kvíðann.

„Það er ekki skimað markvisst eftir kvíðaeinkennum í skólum og ráðlegt fyrir foreldra að ræða við börnin sín um hvernig sýn þau hafa á prófin. Ætti að spyrja börnin spurninga sem leiða í ljós hvort þau hafa raunhæfar hugmyndir um afleiðingar þess ef prófið gengur illa. Þeir sem eru með prófkvíða hafa oft ákveðna bjögun í þankagangi og ofmeta stórlega afleiðingar þess að ganga illa á prófi, og mikla það fyrir sér að gera mistök. Börnin og unglingarnir verða að skilja að það er eðlilegt og mannlegt að gera mistök, og ekkert okkar kemst í gegnum lífið án þess að misstíga sig nokkrum sinnum.“

Ekki fara yfir strikið

Fyrsta ráðið sem Orri nefnir að hjálpi til að ná tökum á kvíðanum er einfaldlega að undirbúa prófin betur. Þar geta foreldrarnir leikið mikilvægt hlutverk og hjálpað nemandanum á heimilinu að skipuleggja lesturinn og upprifjunina. „En það verður líka að passa að ekki sé farið yfir strikið í prófundirbúningnum. Hjá sumum birtist prófkvíðinn í því að þeir undirbúa sig of mikið og eru jafnvel að lesa bækur og glósur alla nóttina fyrir próf. Ég líki þessu við að eiga að spila í mikilvægum fótboltaleik en verja allri nóttinni í að lyfta lóðum. Útkoman er sú sama, að hugur og líkami er ekki í sínu besta formi til að takast á við áskorunina.“

Ef bættur undirbúningur dugar ekki til þá má bæta við slökunaræfingum. „Til eru einfaldar og góðar aðferðir sem allir geta lært,“ segir Orri. „Þá getur hjálpað að læra ákveðnar aðferðir til að takast á við prófið með skipulögðum og öguðum hætti. Nemandinn er þá búinn að ákveða fyrirfram hvernig hann bregst við ef hann t.d. rekst á spurningu sem rekur hann á gat og er með úrræði uppi í erminni til að halda sér gangandi og einbeita sér að því að svara sem mestu.“

Atferlismeðferð og umgjörð

Dugi þetta ekki til er tímabært að leita til sérfróðra aðila til að fá mat á stöðunni og kanna meðferðarmöguleika. Hugræn atferlismeðferð eða HAM hefur sýnt bestan árangur við meðhöndlun kvíðavandamála og mælir Orri með sálfræðingum sem nota þá aðferð. Einnig má nálgast ókeypis meðferðarhandbók um HAM á netinu á heimasíðunni ham.reykjalundur.is.

Námsráðgjafar geta einnig hjálpað til, sérstaklega á framhalds- og háskólastigi, við að skipuleggja námið þannig að álagið verði viðráðanlegra. Segir Orri að það gæti t.d. slegið á kvíðann í háskóla að blanda saman fögum sem nemandanum þykja létt við fög sem honum þykja erfið.

Foreldrar geta oft átt í vandræðum með að skilja hversu mikið þeir eiga að þrýsta á börnin sín í náminu. Orri segir að of lítið aðhald af hálfu foreldra geti leitt til þess að barnið vanræki námið, en of mikið aðhald getur orðið til þess að magna upp kvíða og óhamingju.

„Það er mjög erfitt að segja til um hvar hinn gullni meðalvegur liggur. Allir foreldrar þurfa að finna sjálfir svarið en hafa þó hugafast að miklu skiptir að koma því skýrt til skila að það borgar sig að standa sig vel og leggja sig allan fram, jafnt í bóknámi sem í öllu öðru sem við tökumst á við í lífinu,“ útskýrir Orri. „Barnið verður líka að fá skýr skilaboð um það að við eigum öll okkar slæmu daga og að eitt slakt próf er ekki heimsendir.“

Kæruleysið sem afsökun

Kvíði fólks fyrir prófum getur tekið á sig ýmsar myndir. Orri segir suma nota það sem eins konar „varnar-mekanisma“ að undirbúa sig ekki vel. „Þetta fólk notar þá undirbúningsleysið sem afsökun fyrir því ef árangurinn á prófinu er ekki sem skyldi, og getur þannig komist undan því að líta á frammistöðuna sem mat á eigin getu.“

Kæruleysi og frestunarárátta er ekki góður ávani og getur verið ekki síður skaðlegt fyrir frammistöðuna en alvarlegur prófkvíði.

„Kæruleysið getur líka einfaldlega verið eitthvað sem nemandinn hefur vanist ef hann hefur átt leikandi létt með námið í grunnskóla. Margir reka sig á að þegar komið er í framhaldsskólann eru kröfurnar allt aðrar og einkunnirnar lækka skarplega. Er þá hægara sagt en gert fyrir hluta nemenda að venja sig af þeim námsaðferðum sem þeir hafa tamið sér í tíu ár. Getur verið töluvert átak að læra ný vinnubrögð, en um leið nauðsynlegt ef takast á að ljúka náminu sómasamlega og hvað þá ef stefnan er sett á háskólanám.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert