Áframhaldandi hríðarveður í nótt

Þórður Arnar Þórðarson

Það eru ekki miklar breytingar til morguns og spáð áframhaldandi hríðarveðri með ofankomu á Norður- og Norðausturlandi, ekki síst við Eyjafjörð.

Í fyrramálið snýst vindur til NA-áttar, áfram verður allhvasst með skafrenningi og kófi á flestum fjallvegum frá Bröttubrekku í suðri norður- og austur um á Austfirði.

Færð og aðstæður

Vegir eru greiðfærir að heita má um allt sunnanvert landið.  Hvassviðri er á Kjalarnesi og hálkublettir og skafrenningur á Lyngdalsheiði.

Á Vesturlandi eru flestir vegir greiðfærir en eitthvað er um hálkubletti. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði og í Svínadal. Snjóþekja og stórhríð er á Bröttubrekku og þæfingfærð og skafrenningur á Fróðárheiði.

Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Vestfjörðum.  Ófært er á Klettshálsi, Steingrímsfjarðarheiði og norður í Árneshrepp. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Þröskuldum.

Það er víða hálka, snjóþekja, skafrenningur og éljagangur á Norðurlandi. Þæfingsfærð og skafrenningur er yst á Siglufjarðarvegi, Grenivíkurvegi, á Tjörnesi og á Hólaheiði. Ófært er orðið á Víkurskarði og einnig er ófært á Hólasandi og í Hófaskarði.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja og víða skafrenningur en þæfingsfærð á utanverðu Héraði og á Fagradal. Lokað er á Fjarðarheiði og ófært er á Vatnsskarði eystra. Snjóþekja og éljagangur er á Oddsskarði og Öxi og Breiðdalsheiði eru ófærar. Nú er orðið þungfært á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði og einnig í Jökulsárhlíð.

Greiðfært er með suðausturströndinni en nokkuð hvasst og sandfok á Skeiðarársandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert