Gítarinn hefur alltaf verið hluti af mér

Valdimar vill láta sér og öðrum líða vel og vill …
Valdimar vill láta sér og öðrum líða vel og vill gera skemmtilega hluti sem hafa góð áhrif á sálina. mbl.is/Golli

Þetta er eitt af því sem ég er að gera í dag og hef mjög gaman af. Ég bý til grunnana og þau sem eru með mér í bandinu eru ábyrg fyrir útsetningunum. Textarnir eru á íslensku og þeir eru um náttúruna, lífið og tilveruna eins og hún hefur mætt mér,“ segir Valdimar Örn Flygenring og á þar við hljómsveit sína GG & HEY sem er á leið í stúdíó til að taka upp fyrsta diskinn. Einnig verða tvennir tónleikar á næstunni.

Valdi segir ekki auðvelt að skilgreina tónlistina sem þau spila.

„Þetta eru áhrif frá öllu sem ég hef upplifað alveg frá því ég heyrði fyrst í Bítlunum og Rolling Stones, allar sýrugrúppurnar eru þarna og Pink Floyd, Zeppelin, Tom Waits, Eric Clapton og fleiri. Þessi áhrif eru öll inni í hausnum á manni í graut og það kemur einhvernveginn út. Hrátt. Tónlistin okkar er spuni innan ákveðins ramma og við vitum aldrei alveg hvernig hún verður frá degi til dags. Fólk þarf að þora að vera það sjálft þegar það skapar, þora að vera í veikleikum sínum, þá verður til galdraverk og þá líður öllum vel, ekki bara okkur sem erum að spila heldur líka þeim sem hlusta á okkur. Þess vegna erum við frjáls í því hvernig við gerum lögin frá einum tíma til annars, við viljum leyfa þeim að flæða og við viljum ekki vera bundin af einhverju formi.“

Leikhúsið fullnægði ekki

Valdi hefur alla tíð verið að semja tónlist og hann var trúbador hér áður.

„Gítarinn hefur alltaf verið nálægt mér og ég hef gaman af því að spila þó ég sé ekkert sérstakur gítarleikari. Ég hef líka gaman af því að setja saman ljóð og semja lög. Ég hef verið í nokkrum hljómsveitum í gegnum tíðina, ég stofnaði fyrstu hljómsveitina þegar ég var 14 ára, hún hét Mýramenn og enginn bassi,“ segir Valdi og bætir við að hann hafi árið 1991 gefið út diskinn Kettlinga, með hljómsveit sinni Hennes Verden.

En leikhúsið tók mikið af tíma Valda eftir að hann útskrifaðist sem leikari og þá spilaði hann minna.

„Eftir að hafa starfað í leikhúsinu í 23 ár, þá kom að því að það fullnægði mér ekki lengur og ég sneri mér að öðru. En ég fékk að taka þátt í stórkostlegum hlutum í leikhúsinu og er stoltur af því. Ef eitthvað spennandi kæmi upp væri ég alveg til í að taka þátt í slíku ævintýri aftur.“

Nýtur sín sem leiðsögumaður

Valdi fór í Leiðsögumannaskólann árið 2008 og hefur starfað sem leiðsögumaður síðan.

„Við stofnuðum líka á þessum tíma Stúdíó list, ég og Eiríkur Guðmundsson, og þar kenndum við atvinnulausum ungmennum stuttmyndagerð og leiklist. Við útskrifuðum um 300 nemendur á þeim tveimur árum sem við vorum með þetta og fylgdum þeim eftir út á vinnumarkaðinn. Það var frábært að taka þátt í þessu, ég er enn að hitta nemendur sem fundu þarna lífi sínu farveg.“

Frá því Valdi hóf að starfa sem leiðsögumaður hefur verið mikið að gera, enda ferðamannastraumurinn í örum vexti.

„Ég nýt mín vel í leiðsögumanninum enda hef ég alltaf verið fjallakarl, notið skíðamennsku og útivistar og alltaf átt jeppa. Ég segi stundum við ferðamennina sem ég keyri með í jeppanum: „I am performing my art in a small japanese theater in the icelandic high lands“.“

En svo kom að því að Valdi fór að sakna sköpunarinnar.

„Þá hafði ég samband við vin minn Snorra Arnarson gítarleikara og við ákváðum að hittast með tvo kassagítara heima hjá honum. Við bjuggum til tíu lög þar sem ég notaði mína grunna og hann bæti við sínum dásamlegu flögrandi gítartónum. Þetta þróaðist og við bættum við rafmagnsgítar og fengum son Snorra, Adda Exos trommuleikara, til liðs við okkur og með honum kom nýr hljómur. Síðan bættist Þorleifur „grúv master“ Guðjónsson við bandið, plokkandi kontrabassann. Hann benti okkur á að það væri heilmikil heilun í þessu hjá okkur, og það er rétt, manni líður vel eftir að hafa hlustað á þessa tónlist, hún er mjúk með svolitlu stuði.“

Eigum bara eitt stutt líf

Þeir æfðu undir hljómsveitarheitinu Síðasti bærinn í dalnum og komu nokkrum sinnum fram, en síðan rofnaði línan og þeir tóku sér hlé.

„Fyrir ári var ég staddur í Kaupmannahöfn og heyrði mikið af lifandi tónlist sem þar var spiluð á götum úti. Mér fannst þetta svo manneskjulegt og ég fór að velta fyrir mér þeirri staðreynd að maður á bara eitt stutt líf sem maður upplifir með vinum sínum. Og ég spurði mig: Hvernig ætla ég að koma fram við fólkið mitt og hvernig ætla ég að láta mér líða í lífinu? Vil ég ekki láta mér líða vel og gera skemmtilega hluti sem hafa góð áhrif á sálina?“

Í framhaldinu ákvað Valdi að byrja aftur með hljómsveitina sína.

„Við vorum heillengi að leita að nýju nafni, enda var þetta annar hópur, Þórdís Claessen kom inn sem trymbill í stað Adda sem þurfti að sinna öðru, og hún víkkaði þetta aðeins út með sínum hljómi. Þórdís kom líka með nýja nafnið, GG & HEY, sem stóð ekki fyrir neitt sérstakt. En ég komst að því þegar ég var í heita pottinum um daginn, umvafinn vatni, að þetta er sjóræningjatónlist sem við erum að spila. Ég hef gaman af því að vera á mótorhjóli og ég elska hafið, hef átt skútu og er kannski svolítill sjóræningi í mér. Við í hljómsveitinni erum áhöfnin á þessu skipi, GG & HEY. Ég er kapteinn Flygenring.“

Valdi tekur sjóræningjapælinguna enn lengra í ljósi þess að fylgi Pírata fer vaxandi hér á landi.

„Maður er alltaf að reyna að vera heiðarlegur í þessu lífi, þó það sé erfitt. Ég vil gegnsæi og lýðræði. Meirihluta landsmanna finnst samfélagið ekki virka eins og það ætti að virka, nema fyrir þá sem hafa verið keyptir inn í eitthvað og eru tilbúnir til að verja það með kjafti og klóm. Stórfyrirtækin í heiminum ráða öllu, lýðræðið eins og það var hugsað í upphafi er ekki við völd, stjórnmálamenn geta ekki gert neitt, hendur þeirra eru bundnar. Þess vegna þarf þetta að vera miklu opnara, við þurfum að loka fyrir allt þetta rými fyrir spillingu, því það er ógeðsleg spilling alls staðar. Þessi últra-súper kapítalismi kemur til með að eyðileggja heiminn ef fólk rís ekki upp. Kapítalisminn eirir engu, ekki náttúrunni og ekki mannlífinu. Þeim er alveg sama, því það eina sem skiptir máli í kapítalisma er að exel-skjalið gangi upp.“

Valdi á forláta mótorfák og kann því vel að þeysa …
Valdi á forláta mótorfák og kann því vel að þeysa á honum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Hljómsveitin GG & Hey: Snorri, Valdi, Þórdís og Þorleifur í …
Hljómsveitin GG & Hey: Snorri, Valdi, Þórdís og Þorleifur í góðum fíling. Ljósmynd/Ásta Magg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert