Hanna Birna með góðkynja æxli

Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér ráðherradómi í nóvember í …
Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér ráðherradómi í nóvember í fyrra. mbl.is/Golli

Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður og fyrrverandi innanríkis- og dómsmálaráðherra, er með góðkynja æxli í höfði.

Hún var komin með tvöfalt brjósklos og háan blóðþrýsting  í lok síðasta árs og ákvað því að taka sér fjögurra mánaða hlé frá störfum eftir að  hún sagði af sér sem innanríkisráðherra.

Þetta kom fram í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld.

„Ég fattaði að ég er ekki sami naglinn og ég hélt,“ sagði Hanna Birna um ástæðu þess að hún hafi horfið af sjónarsviðinu í fjóra mánuði eftir að hún sagði af sér. Sagði hún að sér hefði liðið hræðilega illa en ekki haft hugrekkið til að sýna það. Þess vegna hafi hún beðið um frið og þurfa ekki að takast á við almenning og fjölmiðla. „Hanna Birna, nú er bara leikhlé,“ sagði læknir hennar við hana.

Hanna Birna sagði einnig frá því að hún hefði þurft að leita á bráðamóttöku er hún var í opinberri heimsókn í Hollandi á síðasta ári eftir að hún fann fyrir svima og sjóntruflunum. Í kjölfarið fannst þykkildi, eða góðkynja æxli, í höfði hennar. Sagði Hanna Birna að talin væri að það hefði verið þar í nokkur ár.

Spurði Gísla Frey oftar en aðra

Í viðtalinu sagði Hanna Birna einnig að hana hafi grunað alla í kringum sig vegna lekamálsins á ákveðnum tímapunkti en ekki haft neinar sannanir til að benda á einn ákveðinni. Þá sagði hún að örugglega hefði verið farsælla að segja af sér strax eftir að rannsókn á málinu hófst. Vísaði hún til þess að hún hefði verið nýr ráðherra og sagðist óska þess að hún hefði haft kunnáttu, þekkingu og reynslu til að taka aðra ákvörðun.

Áður hefur komið fram að Hanna Birna hafi spurt fólkið í kringum sig hvort það hafi lekið minnisblaðinu. Í viðtalinu sagðist hún þó hafa spurt aðstoðarmann sinn, Gísla Frey Valdórsson, oftar en aðra þar sem hann hafði ákveðna stöðu í rannsókninni.

„Mín mistök í málinu voru að hlaupa í vörn,“ sagði Hanna Birna.

Sagði Hanna Birna að eftir á að hyggja hefði verið rangt að hafa samband við lögreglustjóra vegna rannsóknarinnar.

Grét þegar Gísli Freyr hafði játað

Þá greindi Hanna Birna einnig frá deginum þegar Gísli Freyr játaði fyrir henni að hafa lekið minnisblaðinu. Kom hann í innanríkisráðuneytið ásamt eiginkonu sinni og lýsti Hanna Birna stundinni sem tilfinningaríkri, þungri og erfiðri en hjónin komu til hennar með tárin í augunum. 

Er Gísli Freyr hafi játað lekann grét Hanna Birna. Sagðist hún hafa verið ofboðslega undrandi, svakalega sár og átt erfitt með að meðtaka upplýsingarnar. „Um leið og ég sá þetta, vissi ég að ég yrði að fara,“ sagði hún og hringdi því næst í eiginmann sinn.

Eftir þennan fund hefur hún aðeins einu sinni hitt Gísla Frey en þá hitti hún hann til að fara betur yfir málið og fá skýringar hjá honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert