Kaupþing „stór og áhættusækinn“

Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings, í Héraðsdómi …
Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Kaup Kaupþings í eigin bréfum var ekkert einsdæmi og átti félagið stóran hluta í fjölda fyrirtækja. Þannig átti bankinn um 4,5% eign í Glitni á fyrri hluta árs 2007 og tugi prósenta hlut í Alfesca. Bankinn var einnig stór í Exista og Bakkavör og erlendis átti bankinn t.d. stórar stöður í sænskum bönkum og í Sampo bankanum. Þetta kom fram í máli Einars Pálma Sigmundssonar, fv. forstöðumanns eigin viðskipta Kaupþings, en yfirheyrslur yfir ákærðu í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings hafa haldið áfram í dag.

Saksóknari hefur í dag spurt hann út í fjölda tölvupósta, hleraðra símtala o.s.frv. sem hann telur sýna fram á markaðsmisnotkun hjá bankanum með því að halda verði eigin hlutabréfa uppi.

Var alltaf „stór áhættusækinn fjárfestingabanki"

Einar hefur meðal annars svarað því til að ekkert óeðlilegt hafi verið við stórar stöður bankans, jafnvel í sjálfum sér. Þá hafi hann sjálfur ekki byrjað að vinna hjá bankanum fyrr en 2007 og þá hafði deild eigin viðskipta í langan tíma verið stórt í kaupum á eigin bréfum, sem og að stunda óformlega viðskiptavakt. Við þetta fyrirkomulag hafi enginn gert athugasemd, hvorki Fjármálaeftirlitið, innra eftirlit í bankanum né regluvörður.

Spurði saksóknari Einar hvort hann hefði verið sáttur með þessar stóru stöður svaraði hann því til að hann væri varfærinn að eðlisfari, en að hann hafi strax séð að bankinn var duglegur í að taka stórar stöður. Sagði hann að Kaupþing hafi alltaf verið „stór áhættusækinn fjárfestingabanki með stórar stöður í hlutabréfum.“

Framsetning saksóknara gæti valdið misskilningi

Eftir fjölda spurninga í sömu átt frá saksóknara tók Einar það fram að framsetning saksóknara gæti valdið misskilningi. „Það mætti halda, samkvæmt réttarhöldum að við værum bara að kaupa bréf í Kaupþingi,“ sagði hann en tók fram að svo væri þó ekki. Eigin viðskipti bankans hafi verið með mjög fjölbreytt eignasafn. Þannig hafi þeir verið lang stærsti aðilinn á skuldabréfa- og hlutabréfamarkaði sem og í afleiðuviðskiptum hér á landi og átt í flestum skráðum hlutafélögum landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert