Leigan 230 þúsund án rafmagns og hita

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra greinir frá því á Facebook-síðu sinni í dag að hann hafi selt Hauki Harðarsyni, eins af eigendum fyrirtækisins Orka Energy, íbúð sína við Ránargötu fyrir 53,5 milljónir króna og samið síðan um að greiða 230 þúsund krónur á mánuði í leigu fyrir íbúðina fyrir utan hita og rafmagn til tveggja ára með möguleika á framlengingu. Þau hjónin hafi ekki getað haldið íbúðinni í kjölfar bankahrunsins vegna fjarhagserfiðleika.

„Hrunið lék okkur grátt eins og marga aðra af okkar kynslóð, gjaldþrot fyrirtækis sem ég og tengdafaðir minn heitinn áttum þýddi að á okkur féllu milljóna ábyrgðir og tekjumissir sem ég varð fyrir þegar ég tók mér launalaust leyfi frá þingstörfum gerði sitt. Við stóðum því frammi fyrir því að selja íbúð okkar eða eiga það á hættu að missa hana,“ segir Illugi. Hann hafi leitað að kaupanda að íbúðinni sjálfur í stað þess að auglýsa hana og úr hafi orðið að Haukur hafi keypt hana.

Frétt mbl.is: Illugi þurfti að selja íbúðina

„Við gerðum samhliða samning um leigu til tveggja ára og vali á framlengingu. Kaupverðið var 53,5 milljónir og leigan 230 þúsund krónur (án hita og rafmagns) á mánuði sem tók mið af markaðsaðstæðum í Vesturbænum þegar gengið var frá samningum árið 2013,“ segir ráðherrann áfram. Hann telji rétt að skýra frá þessu í ljósi umræðu um málið að undanförnu. Fullyrðir hann að tenging hans við Orka Energy hafi engin áhrif haft á vinnuheimsókn hans til Kína nyverið.

„Ég vann verkefni fyrir Orka Energy á árinu 2011 og fékk að mestu greitt fyrir það árið 2012 eins og sjá má af tekjublöðum. Það varð kannski til að sem ráðherra gerði ég örugglega minna fyrir þá heldur en þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson, þegar þau voru í Kína árið 2013 og ekki meira en Katrín Jakobsdóttir þáverandi menntamálaráðherra gerði þegar hún var viðstödd undirritun samninga Orka Energy og kínverskra stjórnvalda í Þjóðmenningarhúsinu árið 2012.“

Í gær skýrði ég frá því að við hjónin gátum ekki haldið íbúð okkar eftir nokkur fjárhagsleg áföll sem á okkur dundu...

Posted by Illugi Gunnarsson on Monday, April 27, 2015
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert