Stefnir í verkföll hjá Flóanum

Sigurður Bessason, formaður Eflingar.
Sigurður Bessason, formaður Eflingar. Árni Sæberg

Samninganefnd Flóabandalagsins hefur tilkynnt ríkissáttasemjara að lengra verði ekki komist í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Fulltrúar Flóabandalagsins og SA funduðu í um klukkustund í morgun, án árangurs.

„Við töluðum um það fyrir tíu dögum að við hefðum ekki mjög langan tíma til að láta sjást í að það væri eitthvað að gerast sem við gætum metið sem svo að það væri komið eitthvað skrið á viðræður. Þó að einhverjar þreifingar hafi vissulega átt sér stað, þá segja þær ekkert um hvernig þær muni skila sér. Þannig að við erum einfaldlega komin í þá stöðu að við teljum að hér verði ekki haldið áfram lengra og tilkynntum ríkissáttasemjara það,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar.

Á fundinum stóð til að ræða launamálin. Sigurður segir að samninganefnd Flóabandalagsins muni nú taka sér einhvern tíma, a.m.k. þessa viku, til að skoða framhaldið, en svarar með skýru já-i spurður að því hvort verkföll séu yfirvofandi.

Félagsmenn innan bandalagsins eru 21 þúsund talsins og Sigurður segir ljóst að verkfallsaðgerðir muni hafa víðtæk áhrif. „Þetta er fólk sem vinnur í iðnaði, þetta eru veitingahús, hótel, olíudreifing, bensínið. Þetta eru hlaðmenn, skipafélög, mjólkin, öryggisvarsla, ræstingar, mötuneyti. Og ég get raunverulega haldið áfram að telja langan lista,“ segir hann.

Eins og stendur hafa þó engar ákvarðanir verið teknar um til hvaða hópa verkfallsaðgerðir myndu ná til.

Sigurður segir samninganefndina gera kröfu um leiðréttingu til handa sínu fólki.

„Þetta var fólkið sem lagði grunninn að þeim stöðugleika sem við búum við núna í dag, og síðan var bara valin önnur leið fyrir aðra hópa. Og þess vegna er þessi staða komin upp; að við teljum okkur eiga inni ákveðna leiðréttingu miðað við þá stöðu sem er uppi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert