Dýpkun Landeyjahafnar langt komin

Farþegaferjan Víkingur sigldi í dag á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja, …
Farþegaferjan Víkingur sigldi í dag á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja, sjötta daginn í röð. mbl.is/Sigurður Bogi

Tvö dæluskip Björgunar ehf. vinna nú að dýpkun Landeyjahafnar og segir Gunnlaugur Kristjánsson, forstjóri Björgunar, dýpkunina ganga vel og veðurskilyrði vera góð. Dýpið í höfninni er ekki nægilega mikið til þess að Herjólfur geti siglt þangað en vonir hafa verið uppi um að Herjólfur geti siglt sína fyrstu ferð til Landeyjahafnar á þessu ári næsta föstudag. 

Gunnlaugur segir best að hafa sem fæst orð um það hvenær Herjólfur geti siglt inn í höfnina og segir ákvörðun um slíkt ekki vera í sínum höndum, heldur sé það Eimskip, rekstraraðili Herjólfs, og Vegagerðin, sem ákveði slíkt. 

Dýpið í höfninni er þó orðið nægilega mikið fyrir farþegaferjuna Víking sem sigldi í dag á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja sjötta daginn í röð. Sigurmundur G. Einarsson, eigandi Viking Tours, segir fjölda ferðamanna í Vestmannaeyjum strax orðinn allt annan en hefur verið síðustu mánuði.

Hóparnir strax farnir að skila sér til Eyja

„Þetta breyttist allt um leið og við hófum að sigla þarna á milli. Fimmtíu manna hópur kom í gær og fleiri hópar á undanförnum dögum,“ segir Sigurmundur og bætir við að ferðir Víkings til Landeyjahafnar hafi ekki einungis komið sér vel fyrir ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum heldur séu margir Eyjamenn búnir að nýta sér ferðir Víkings frá því að siglingar til Landeyjahafnar hófust, m.a. íþróttahópar á vegum ÍBV.

„Þetta er auðvitað rosalegur munur. Staðan var hrikaleg í vetur og alveg fram til 24. apríl. Í rauninni var veturinn bara úti. Það þarf að gera mikla bragarbót á þessu fyrir veturinn,“ segir Sigurmundur og bætir við að Viking Tours sé búið að ráðast í miklar fjárfestingar og því gangi það ekki að ferðamannatímabilið á eyjunni standi aðeins yfir í fjóra mánuði á ári.

Mikill munur er á fjölda ferðamanna á veturna og á sumrin. „Það er alveg troðið á sumrin og það eru bara samgöngurnar sem skilja þar að,“ segir Sigmundur, en mikið hefur verið um afbókanir frá ferðamönnum hjá Viking Tours á undanförnum mánuðum.

„Það kemur enginn í gegnum Þorlákshöfn, menn taka ekki þriggja tíma bátsferð í dagsferð,“ segir hann.

Sigurmundur Einarsson á og rekur Viking Tours í Vestmannaeyjum.
Sigurmundur Einarsson á og rekur Viking Tours í Vestmannaeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert