Stormviðvörun á Suðausturlandi

Það er fátt sem minnir á sumar í Ólafsfirði
Það er fátt sem minnir á sumar í Ólafsfirði Ljósmynd Lára Stefánsdóttir

Búist er við stormi á Suðausturlandi fram eftir degi með hvössum vindhviðum við fjöll. Áfram má búast má við vetrarfærð og erfiðum akstursskilyrðum á Norður- og Austurlandi, en dregur smám saman úr vindi og ofankomu þegar líður á daginn, segir í viðvörun frá vakthafandi veðurfræðingum Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Norðlæg átt 10-18 m/s, en 18-23 á Suðausturlandi. Él og skafrenningur norðan- og austanlands, en léttskýjað að mestu sunnan- og vestanlands. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu þegar líður á daginn, 8-15 m/s í kvöld. Hiti um og yfir frostmarki, en allt að 9 stiga hiti sunnantil að deginum.

Norðaustan 3-8 m/s, en 8-13 með SA- og A-ströndinni fyrir hádegi. Bjart með köflum V-til, dálítil él með N- og A-ströndinni, en snjókoma eða slydda S-lands. Frost 0 til 5 stig, en hiti 0 til 5 stig S- og V-til yfir daginn.

Á fimmtudag:
Austlæg átt 3-8 m/s. Snjókoma eða slydda af og til S-lands, annars skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti breytist lítið.

Á föstudag:
Hæg austlæg eða breytileg átt. Víða nokkuð bjart, en dálítil él á stöku stað, einkum SA- og A-til. Hiti rétt ofan frostmarks á S- og V-landi yfir daginn, annars frost 0 til 7 stig, mest í innsveitum NA-lands.

Á laugardag:
Austlæg átt 5-13 m/s og slydda eða snjókoma með köflum S- og A-lands, annars þurrt að kalla. Hiti 0 til 5 stig S- og V-til, en um eða undir frostmarki annars staðar, einkum inn til landsins.

Á sunnudag og mánudag:
Ákveðin austlæg átt með slyddu SA-lands, en yfirleitt þurrt í öðrum landshlutum. Hlýnar heldur í veðri

Tilkynning frá Vegagerðinni um klukkan 22 í gærkvöldi:

Vegir eru greiðfærir að heita má um allt sunnanvert landið.  Hvassviðri er á Kjalarnesi og hálkublettir og skafrenningur á Lyngdalsheiði.

Á Vesturlandi eru flestir vegir greiðfærir en eitthvað er um hálkubletti. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði og í Svínadal. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Bröttubrekku og Fróðárheiði.

Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Vestfjörðum. Ófært er á Klettshálsi, Steingrímsfjarðarheiði og norður í Árneshrepp. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Þröskuldum.

Það er víða hálka, snjóþekja, skafrenningur og éljagangur á Norðurlandi. Þæfingsfærð og skafrenningur er yst á Siglufjarðarvegi, Grenivíkurvegi, á Tjörnesi og á Hólaheiði. Ófært er orðið á Víkurskarði og einnig er ófært á Hólasandi og í Hófaskarði.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja og víða skafrenningur en þæfingsfærð á utanverðu Héraði og á Fagradal. Lokað er á Fjarðarheiði og ófært er á Vatnsskarði eystra. Snjóþekja og éljagangur er á Oddsskarði og Öxi og Breiðdalsheiði eru ófærar. Nú er orðið þungfært á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði og einnig í Jökulsárhlíð.

Greiðfært er með suðausturströndinni en nokkuð hvasst og sandfok á Skeiðarársandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert