Ekkert ferskt kjöt fyrr en verkfalli lýkur

„Allur ferskur kjúklingur er búinn og allt ferskt svínakjöt af nýslátruðu. Svo er ekki mikið eftir af nautakjöti,“ segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, en vegna verkfalls dýralækna hefur slátrun spen­dýra og fiður­fénaðar stöðvast og er vöruúrval af ferskri kjötvöru í verslunum því nánast ekkert.

Guðmundur segir jafnframt ganga hratt á birgðirnar í frosinni kjötvöru. „Það er til frosinn kjúklingur í verslunum okkar og verður í nokkra daga, en það mun ekki duga lengi,“ segir hann og bætir við að innfluttur frosinn kjúklingur þurfi að vera frosinn í gámi í 30 daga eftir að hann kemur til landsins og því sé ekki hægt að losa gáma fyrr en eftir að sá tími er liðinn. 

Guðmundur segist búast við því að neysluvenjur landsmanna muni breytast á næstu vikum, þar sem ekki er útlit fyrir að fersk kjötvara verði á boðstólum fyrr en verkfall Bandalags háskólamanna (BHM) verði á enda. „Fólk leitar þá í eitthvað annað og við eigum nóg til af mat. Það er til að mynda nóg til af lambi og fiski en það er ekkert um kjöt af nýslátruðu.“ Eitthvað sé þó til af frosnu svínakjöti sem verið sé að þíða upp. 

Aðspurður hvort skortur sem þessi hafi áður komið upp segist Guðmundur ekki muna eftir því. „Það hefur oft verið kjúklingaskortur, til dæmis fyrir nokkrum árum þegar það var mikið um kampýlóbakter og mikið um innkallanir - en nú er hreinlega ekkert til,“ segir hann.

Guðmundur segir viðskiptavini þó meðvitaða um stöðuna, og áfram verði allt gert til að reyna að útvega viðskiptavinum það sem þeir vilja. „En það er ekkert voðalega bjart framundan í þessu,“ segir Guðmundur. 

Eins og fram hefur komið hefur und­anþágu­nefnd Dýra­lækna­fé­lags Íslands samþykkti mjög tak­markaða slátrun á kjúk­ling­um frá búum þar sem dýra­vel­ferðarþætt­ir voru komn­ir að hættu­mörk­um. Guðmundur segir þetta þó ekki skila sér í verslanir þar sem ekki megi selja ferska kjötvöru til verslana þrátt fyrir að búið sé að slátra. Því séu ekki líkur á því að slík vara komi í verslanir fyrr en verkfallið endi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert