Eyddi deginum eins og uppvakningur

Ingólfur Axelsson.
Ingólfur Axelsson.

Ég eyddi deginum eins og uppvakningur sem skilur ekki hvernig örlög okkar ráðast,“ skrifar Ingólfur Axelsson á Facebook-síðu sína í dag. Þar segir hann frá því að hann sé kominn til Katmandú þar sem hann verður fram á miðvikdag áður en hann heldur heim á leið. Ingólfur hafði ætlað sér að klífa Everestfjall en ferðinni var hætt þegar öflugur jarðskjálfti skók Nepal og snjóflóð féllu í kjölfarið. 

„Eftir það stíg ég upp í aðra flugvél sem mun taka mig út úr þessu lífi og inn í „raunverulegt“ líf mitt. Flugvélar eru vélar sem taka okkur ekki bara á milli staða, heldur taka þær okkur á milli persónuleika líka,“ skrifar hann.

Frétt mbl.is: Hrekkur við af minnsta tilefni

Ingólfur segir Katmandú í slæmu ástandi eftir jarðskjálftann. Borgin sé lifandi en þó sé hún illa særð og þjökuð af sársauka. Segir hann brosin á andliti Nepala vera líflaus og sorgina sjást í hverju auga.

Ingólfur lýsir því hvernig hjálparstarfsmenn séu alls staðar og nú hafi mesta þörfin færst frá Katmandú yfir á afskekktari svæði sem urðu fyrir miklum skemmdum vegna skjálftans. Leigubílstjóri sem keyrði hann á milli staða í borginni hafi bent á staði og sagt honum að „þarna hafi 100 látist“ og „þarna hafi 120 látist“.

„Þegar ég skrifa þetta frá stofunni á hostelinu er manneskja við hliðina á mér sem er að safna upp hugrekki til að hringja í foreldra tveggja þýskra stúlkna sem hefur verið saknað síðan jarðskjálftinn reið yfir hinn 25. maí. Lík þeirra fundust í dag. Allir hér inni eru með tár í augunum og fullir samúðar.“

Þá segist hann munu vakna upp 8. maí í sínu „raunverulega“ lífi með nýjan persónuleika umkringdur fólki sem mun ekki skilja hvað hefur átt sér stað síðustu vikuna. „Draumar eru mölbrotnir og hugar eru beygðir, aðeins tímabundið.“

Eins og fram hefur komið mun Ingólfur ekki klífa Ev­erest í ár. Það bjargaði lífi hans að hafa ekki verið í búðunum þegar snjóflóðið reið yfir, en þrír úr hans hópi létust. Þá gjöreyðilögðust búðirnar sem Vil­borg Arna var í og fimm úr henn­ar leiðangri lét­ust. Það sem bjargaði lífi henn­ar var að hún var ekki í tjaldi sínu þegar skjálft­inn reið yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert