Gleðin var mest yfir sigri mömmu

Eivör Pálsdóttir afgreiðir myndatökuna úti á Gróttu sem þaulæfð Marilyn Monroe, hún hefur þetta náttúrulega sjálfsöryggi, afslöppuð en með þetta svokallaða „aukalega“ sem enginn fær útskýrt en dregur fólk að.

Hún kom fyrst til Íslands til að læra söng 17 ára og ekki liðu nema 3 ár þar til hún var búin að krækja sér í Íslensku tónlistarverðlaunin sem besti söngvarinn og besti flytjandi ársins. Með sína aðra sólóplötu þá. Hún var færeysk, kom fram berfætt, var samt alltaf sjúklega heitt á fótunum, og spilaði ekki beinlínis dægurlagapopp. Virtist ekki endilega vera uppskrift að velgengni hérlendis en engu að síður stakk hún öllum í vasann.

Hvað gerðir þú rétt? spyr ég eftir að hún hefur sagt mér á hraðri göngu inn á Hótel Sögu þar sem við setjumst niður að lokinni myndatöku að hún finni alltaf að hún sé komin heim þegar hún kemur til Íslands. Nú býr hún í Kaupmannahöfn.

„Ég veit ekki alveg af hverju það gekk strax svona vel að koma mér á framfæri hér á Íslandi. Það er margt sem vann með mér og gaf mér vind undir vængina á Ìslandi, bandið mitt Krákan var mjög mikilvægur hluti af því og svo margt margt annað sem hjálpaði til. En mér finnst ég aldrei geta fullþakkað hversu vel Íslendingar tóku á móti mér, ekki bara sem áheyrendur heldur líka tónlistarsenan hérlendis, ég var boðin velkomin inn í hana og var ekki utangarðs. Það var alveg einstök hlýja. En kannski getur þú frætt mig um hvað þetta er sem þú tengir við í tónlist minni?“ spyr Eivör blaðamann.

Manni vefst tunga um tönn þegar á að útskýra tónlist. Eivör var enga stund að ná til okkar, ekki síður með framkomu en tónlist en kannski má nefna einhvern frumkraft? Eivör er ekki að heyra þetta í fyrsta skipti svo blaðamaður reynir að leita frumlegri skýringa. Kannski einhver blanda af einhverjum afar hráum efnivið og öðrum fíngerðari, timbur og kristall?

„Já, þetta er ekkert út í hött, stundum fæ ég að heyra eftir tónleika að fólki líði eins og það hafi einhvern veginn tengst sínum uppruna, grunni sínum, úti í sal. Ég lít þannig á tónlistina og tengist henni þannig sjálf svo að það er ekkert ósennilegt að það smitist þannig út til áheyrenda. Ég upplifi alltaf eitthvað þegar ég er á sviði sem verður ekki alveg útskýrt, stundum eins og ég standi utan við sjálfa mig. Ég trúi því að það sé meira milli himins og jarðar en maður býst við, ég ber virðingu fyrir því og upplifi það alltaf í tónlistinni.“

Eivör segist líka halda að það hafi eitthvað að gera með tungumálið að tónlistin falli í kramið.

„Færeyska og íslenska eru svipuð tungumál og kannski er það þetta að íslenskum áheyrendum líði eins og þeir séu að hlusta á íslensku en samt með einhverju framandi yfirbragði.“

Fjarvera setur hlutina í nýtt samhengi

Eivör er nýkomin úr tónleikaferðalagi um Þýskaland og Austurríki og mun halda fjölmarga tónleika í Danmörku í maí, þá taka sumarfestivölin við. Í haust er aftur túr um Evrópu, dagskráin er þéttbókuð og pökkuð. Eivör hélt útgáfutónleika um síðustu helgi í tilefni þess að hún var að gefa út sína níunda sólóplötu, Bridges, en hún hefur unnið í lögunum síðustu tvö árin frá því að plata hennar Room kom út.

Vinna við plöturnar er yfirleitt í þremur fösum eins og hún orðar það sjálf. Fyrst semur Eivör lögin og textana og það tekur mestan tíma. Flest lögin á nýju plötunni urðu til á ferðalögum hennar síðustu 2 árin. Svo vinnur hún í hljóðheiminum sjálfum, sá hluti fór núna fram í Kaupmannahöfn, og endar á að taka upp, hljóðblanda og fullvinna plötuna, núna tók hún plötuna upp í Færeyjum en fullvann hana á Íslandi. Platan er því unnin um allan heim. Hljóðheiminn sjálfan vann hún að stórum hluta með eiginmanni sínum, Þrándi Bogasyni, sem hún gekk að eiga árið 2012 en Þrándur er tónskáld sem starfar fyrst og fremst í klassíska geiranum en þau höfðu þekkst og unnið saman áður en þau urðu par.

„Ég er búin að vera á eilífum ferðalögum síðustu árin. Flest lögin mín eru undir áhrifum þessara ferðalaga og hvernig upplifun það er að vera í burtu. Ég hef náð að hugsa mikið þegar ég er að ferðast en það geri ég yfirleitt ein, það er að segja Þrándur er allajafna heima og að sinna sínum verkefnum. Enda á ég líka 9 ára stjúpdóttur sem er hjá okkur aðra hverja viku svo það þarf alltaf einhver að vera til staðar heima í Kaupmannahöfn.

En ég hef sem sagt upplifað allar hliðar þess að vera í burtu frá mínu fólki og mínum heimahögum og maður sér hlutina öðruvísi úr fjarlægð. Lögin eru eiginlega nokkuð auðsjáanlega í eins konar álögum þessarar fjarveru.“

Eivöru langaði að hafa þessa plötu einfalda. „Með fáum frumþáttum en ekki í risastórri umgjörð. Hvert einasta hljóð er því vandlega valið, ég vandaði mig við að velja þau element sem ég vildi svo vinna áfram með. Frá Högna Lisberg, trommaranum í sveitinni minni, kemur elektróník en ég bjó upprunalega til trommuhljóðin með litlu handtrommunni minni, skinntrommu, sem ég hugsa að margir kannist við. Ég sendi Högna þessi hljóð, sem vann svo með þau. Öll hljóðin eru því gerð úr þessari trommu. Ég hef aldrei unnið nákvæmlega svona áður, að ákveða að hafa þetta svona einfalt og oft er ejju svi einfalt að beisla einfaldleikann. Það er svo auðvelt að missa tökin þegar maður kemur í hljóðver. Ég vildi hafa tónlistina berstrípaða og held að það hafi tekist.“

Sorgin komin á næsta stig

Tónlist Eivarar er alla jafna persónuleg en á plötunni núna er að finna sérstaklega persónulegar lagasmíðar. Meðal annars lag sem fjallar um móður hennar og baráttu hennar við krabbamein. Eivör missti föður sinn fyrir fjórum þegar hann varð bráðkvaddur og sú sorg markaði lagasmíðar hennar á plötunni sem kom út árið 2012. Aðeins tveimur árum síðar greindist móðir hennar með krabbamein svo Eivör þurfti áfram að kljást við erfiða lífsreynslu en lagið Purple Flowers er tileinkað móður hennar og hennar veikindum.

„Mamma greindist þegar ég var að byrja að vinna lögin fyrir þessa plötu en það er ekki nema hálft ár síðan við fengum ánægjulegu tíðindin; að hún hefði náð að sigrast á sjúkdómnum. Það var ótrúlegur léttir og ég held að það sé eflaust ein af ánægjulegustu stundunum í mínu lífi, alveg eins og það var sú erfiðasta þegar pabbi féll frá. Ég get ekki lýst því nema að sama hvað gerist í lífinu þá verður ekkert betra en sú stund sem ég vissi að mamma hefði náð sigri sínum.

Ítarlegra viðtal við Eivöru má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert