Líkir ákærulið við lán Seðlabankans

Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, kemur í héraðsdóm Reykjavíkur …
Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, kemur í héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Það er tvískinnungur hjá yfirvöldum að koma öllum ásökunum vegna falls fjármálakerfisins yfir á stjórnendur viðskiptabankanna þriggja meðan stjórnendur opinberra stofnana hafa aldrei verið með stöðu sakborning í málum eftir hrun.

Þetta segir Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, en í morgun hófst vitnaleiðsla yfir honum við aðalmeðferð í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings.

Hélt mikla ræðu í dómsal

Hreiðar hélt mikla ræðu í ávarpi sínu og sagði meðal annars að ef það hefði verið áætlun hans eða annarra starfsmanna bankans að láta viðskiptavini græða með lánveitingum eða koma í veg fyrir lækkun í bankanum, þá hafi það mistekist. Sagði hann ástæðuna einfalda.

„Starfsmenn Kaupþings ætluðu aldrei í störfum sínum að auðga viðskiptavini á kostnað bankans og það var aldrei markmið starfsmanna Kaupþings að koma í veg fyrir að hlutabréfaverð í Kaupþingi lækkaði.“

Hreiðar sagði að í þessu máli hefði íslenska ríkið ákært átta af starfsmönnum bankans, en að enginn sé sakaður um að reyna að græða persónulega á meintu misferli. Benti hann á að hlutabréf í Kaupþingi hafi á ákærutímabili lækkað umfram það sem aðrir bankar í Evrópu lækkuðu.

Ríkið klúðraði sínum málum en kærir bankastarfsmenn

Gerði hann einnig ríkið og neyðarlögin að umtalsefni. Sagði hann það skjóta skökku við að ríkið, sem setti neyðarlögin á, sé nú að ákæra bankastarfsmenn fyrir að hafa ekki gætt hagsmuna bankans.

Sagði hann að á árunum fyrir hrun hafi íslenska ríkið greitt út hærri vexti í eigin gjaldmiðli en nokkurt annað vestrænt ríki sem ýtti undir óhagstæðan viðskiptajöfnuð og hélt uppi óraunhæfum kaupmætti, verið með meiri viðskiptahalla við útlönd í fjölda ára en nokkur önnur dæmi eru um í sögunni og sem hafi verið með innistæðusjóð sem var brotabrot af ábyrgðum hans.

„Og þetta sama ríki vill að ég og aðrir stjórnendur Kaupþings sitji í fangelsi fyrir að hafa ekki gætt nægjanlega hagsmuna Kaupþings,“ sagði hann.

Líkir Desulo-láni við Seðlabankalán

Einn ákæruliðurinn í málinu er vegna lána sem voru veitt félaginu Desulo til kaupa á bréfum í Kaupþingi þar sem bréfin sjálf voru eina veðið. Hreiðar sagði áhugavert að bera saman þetta mál og þegar Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi 500 milljón evrur eftir fall Glitnis.

Ekki náðist að halda stjórnfund hjá Kaupþingi áður en lánveitingin var samþykkt og ekki voru undirritaðir neinir lánasamningar eða veðsetning kláruð. Segir hann það sama hafa átt sér stað hjá Desulo.

„Þrátt fyrir það vill íslenska ríkið að stjórnendur Kaupþings fari í fangelsi vegna þessara lánveitingar,“ sagði Hreiðar og bætti við að á sama tíma hafi ríkið ekki séð ástæðu til að ákæra bankastjóra sinn hjá Seðlabanka Íslands sem hafi greitt út megnið af gjaldeyrisforða þjóðarinnar án þess að tryggja veðsetningu bréfa í FIH bankanum sem veð.

Ótrúlegur tvískinnungur

Sagði Hreiðar að saksóknari hafi sérstaklega kannað hvort bankastjórar Seðlabankans hafi gerst brotlegir við lög og að það hafi tekið saksóknara aðeins nokkra daga að komast að því að svo væri ekki.

„Þið verðið að afsaka háttvirtir dómarar þó mér finnist íslenska ríkið sýna ótrúlegan tvískinnung við uppgjörið á efnahagshruninu og allt kapp virðist lagt á að koma sökinni yfir á stjórnendur og starfsmenn viðskiptabankanna,“ sagði Hreiðar.

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert