Misskilningur að ráðherrar „bara bíði og voni“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin sitji ekki með hendur í skauti vegna þeirra ólgu sem ríkir í kjaramálum hér á landi. „Það er mikill misskilningur ef menn halda að ráðherra í ríkisstjórninni sitji hjá og bara bíði og voni. Það er svo langt því frá,“ sagði Bjarni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, beindi fyrirspurn til Bjarna, en hún sagðist hafa áhyggjur af áhrifum verkfallsaðgerða á samfélagið í heild.

„Mér finnst staðan í kjaramálunum vera þannig að það stefni í mjög mikið óefni. Mér finnst menn ekki vera að sýna neina forystu í því að reyna að laga, eða koma til móts við þessa hópa og laga stöðuna,“ sagði Katrín benti á að aðeins þrjár vikur væru eftir af þessu þingi. Ekkert benti til þess að stjórnvöld ætluðu að gera nokkurn skapaðan hlut. 

Hægt að koma til móts við launþega með óbeinum aðgerðum

Katrín sagði að ríkið gæti komið til móts við þessa hópa með ýmsum hætti og bætt þeirra lífskjör, t.d. með óbeinum aðgerðum. T.d. með því að lækka endurgreiðslubyrði námslána og gera það ódýrara fyrir fólk að koma sér þaki yfir höfuðið. Hún bendir á að menn kalli eftir fleiri aðgerðum til að bæta lífskjör fólks en beinar launahækkanir.

Hún spurði fjármálaráðherra hvort það standi til hjá ríkisstjórninni að svara kröfum um óbeinar aðgerðir til að bæta lífskjör þessara hópa. Þannig megi nýta þann tíma sem þingið eigi eftir til að ljúka slíkum málum.

Bjarni sagðist deila áhyggjum Katrínar af stöðu mála. „Það er allt í hnút, bæði á almenna markaðinum og í viðræðum við ríkið. Það hefur því miður lítið þokast og menn hafa vísað til sáttasemjara sem hefur ekki náð að miðla málum,“ sagði hann.

Bjarni segir að ríkisstjórnin sé reiðubúin til að ræða ýmsar hliðar í þessari vinnu, m.a. að beita opinberum aðgerðum til að koma til móts við kröfur fólks. Hann segir að stjórnvöld hafi átt fjölmarga slíka fundi til að fara yfir þau mál, m.a. í dag.

Leggja áherslu á að halda verðbólgunni í skefjum

„Það er mikill misskilningur ef menn halda að ráðherrar í ríkisstjórninni sitji hjá og bara bíði og voni. Það er svo langt því frá. Hins vegar stöndum við sameiginlega frammi fyrir því stóra álitamáli hvernig við getum fært launþegum þessa lands raunverulegar kjarabætur sem að endast,“ sagði Bjarni.

„Okkar áhersla hefur verið á það að samhliða því að gera nýja kjarasamninga þá verði lögð áhersla á að halda verðbólgunni í skefjum og þannig styðja við frekari kaupmáttaraukningu. En kaupmáttaraukning á síðustu tólf mánuðum var á Íslandi einhver sú mesta sem mælst hefur í Evrópu. Það var á grundvelli þess að verðbólgan niður undir eitt prósent og hefur verið þar síðastliðna mánuði,“ sagði Bjarni og bætti við að það væri gríðarlega sterkur grunnur til að byggja á. 

Bjarni kveðst bjartsýnn á að menn muni þróa og finna lausnir í þessari samningalotu, bæði ríkið sem beinn aðili að gerð samninga og ríkið sem geti stuðlað að friði á vinnumarkaði.

Katrín Júlíusdóttir og Bjarni Benediktsson ræddu stöðu kjaraviðræna á Alþingi …
Katrín Júlíusdóttir og Bjarni Benediktsson ræddu stöðu kjaraviðræna á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert