Mjög ánægjulegt að hitta Íslendinga

Robert Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Robert Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hafði ekki komið til Íslands áður og ég er gríðarlega ánægður með að vera hér. Margir þeirra sem ég hef rætt við síðan ég kom hingað fyrir rúmum þremur mánuðum hafa haft á orði hversu hörmulegur veturinn hafi verið og hversu leiðinlegt veðrið hefur verið. Ég hef svarað því annars vegar á þá leið að ég hafi ekki komið til Íslands vegna veðursins og hins vegar með því benda á að daginn áður en ég yfirgaf heimaborg mína Boston í lok janúar á leið til Íslands var komið þriggja metra lag af snjó í borginni. Þannig að Reykjavík og Ísland hafa verið tiltölulega hlý miðað við veturinn í Boston. Dagar eins og í dag eru virkilega ánægjulegir þegar sólin skín og grænir sprotar fara að kíkja upp úr jörðinni í görðum allt í kring. Bæði hér á landi og annars staðar.“

Þetta segir Robert C. Barber, nýr sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, í samtali við mbl.is en hann kom til landsins í lok janúar og hóf formlega störf sem sendiherra. Barber er fæddur árið 1950 í borginni Columbus í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum en ólst upp í Charleston í Suður-Karólínu. Hann lauk laganámi frá Boston-háskóla árið 1977 og meistaragráðu í skipulagsfræðum frá Harvard-háskóla sama ár. Barber gekk til liðs við lögfræðistofuna Looney & Grossman LLP árið 1981 þar sem hann starfaði þar til hann tók við embætti sendiherra. Lögfræðistofan hefur lagt áherslu á nýsköpunarfyrirtæki og rekstur einkamála tengdum viðskiptalífinu.

„Allur heimurinn getur lært af Íslendingum“

Þú hefur gegnt sendiherraembættinu í rúma 100 daga núna. Hvernig hefur þeim tíma verið varið fyrir utan hefðbundin störf í sendiráðinu?

„Starfsfólk sendiráðsins, sem er frábært, undirbjó komu mína vel og skipulagði ferðir út fyrir Reykjavík til þess að skoða landið, eins og kostur var miðað við árstíma og veðurfar, sem og fundi með fjölda einstaklinga á flestum sviðum þjóðfélagsins. Bæði ráðamönnum landsins og öðrum stjórnmálamönnum, fulltrúum einkafyrirtækja, fólki úr menningarlífinu og menntakerfinu o.s.frv. Ég hef haft mikla ánægju af því að hitta Íslendinga sem hefur ekki komið mér á óvart. Það hefur verið virkilega ánægjulegt og ég hlakka til þess að fá tækifæri til þess að kynnast fleirum.“

Sendiherraembættið er nýtt fyrir þér. Hvernig hefur það komið þér fyrir sjónir þann tiltölulega skamma tíma sem þú hefur gegnt því?

„Mér þykja allar hliðar þessa starfs áhugaverðar og spennandi. Ég hef þegar lært margt nýtt í starfinu og í sumum tilfellum hefur það kallað fram hæfileika sem ég vissi ekki að ég byggi yfir. En fyrri störf mín sem viðskiptalögfræðingur, þar sem ég hef aðstoðað lítil og meðalstór fyrirtæki við að vaxa og ná árangri, eru að mörgu leyti lík þeim verkefnum sem fylgja þessu starfi. Ég hef víðtæka reynslu af því að reyna að tengja saman aðila með sameiginlega hagsmuni. Þannig að það er fyrir vikið sérstaklega spennandi hluti þessa starfs að mínu mati. Ég er vongóður í þeim efnum og vona að ég geti lagt eitthvað að mörkum í þeim efnum. Það er allavega markmið mitt. Ég hef til að mynda kynnt mér, að ég tel, vel árangur ykkar þegar kemur að vinnslu sjávarafurða og tel að reynsla ykkar og þekking gæti orðið bandarískum sjávarútvegi mjög til framdráttar. Sama á við um nýtingu jarðvarma þar sem Ísland er í fararbroddi á alþjóðavettvangi. Allur heimurinn getur lært af ykkur í þessum efnum.“

Fylgst náið með þróun mála á Norðurslóðum

Mörgum þykir sem aðstæður í Norður-Evrópu og Norðurslóðum séu ekki eins öruggar og á undanförnum árum og hafa jafnvel borið þær saman við kalda stríðið. Hvernig sjá þær aðstæður við þér?

„Ég hef ekkert stefnumótandi vald þannig að ég get ekki sagt þér hvað Bandaríkin ættu að gera og ekki heldur hvað bandarísk stjórnvöld kunni að hafa í hyggju að gera í þeim efnum. Það sem ég get sagt er að til þess bærir einstaklingar fylgjast vel með öllu sem fram fer. Formleg tengsl Íslands og Bandaríkjanna ná 75 ár aftur í tímann og samstarf landanna hefur allan þann tíma verið mjög traust. Bæði tvíhliða og í gegnum fjölþjóðlegt samstarf eins og til að mynda NATO. Samstarfið hefur þróast í gegnum tíðina og mun gera það áfram í samræmi við ákvarðanir þeirra sem til þess eru bærir. Verkefni mitt á meðan ég verð hér á landi er að veita aðstoð mína við að styrkja samstarf landanna á sem flestum sviðum. Bæði tvíhliða sem og í gegnum fjölþjóðlegt samstarf.“

Bandaríkin fara með formennsku í Norðurskautsráðinu næstu tvö árin. Hverjar verða áherslur bandarískra stjórnvalda á þeim tíma?

„Bandaríkin eru mjög áhugasöm um formennskuna í Norðurskautsráðinu. Komið hefur fram í máli Johns Kerry utanríkisráðherra að bandarísk stjórnvöld leggi einkum áherslu á þrjú meginatriði í formennskutíð sinni. Efst á blaði eru loftlagsbreytingar og mat á áhrifum þeirra. Ennfremur meðal annars sjálfbæra nýtingu á auðlindum Norðurslóða í þágu þeirra sem byggja svæðið og ábyrga og skynsama stjórnun hafsvæðisins á Norðurslóðum. Þetta eru þrjár helstu áherslurnar. Við metum Ísland mikils á meðal þeirra átta ríkja sem aðild eiga að Norðurskautsráðinu og við vonumst til þess að ráðið verði áfram vettvangur samstarfs og ábyrgrar ákvarðanatöku um mál sem snerta hagsmuni allra þeirra ríkja sem tilheyra Norðurslóðum.“

Vongóður um aukin viðskipti á milli landanna

Þú hefur lýst áhuga þínum á að stuðla að auknum viðskiptum á milli Íslands og Bandaríkjanna. 

„Ég hef mjög mikinn áhuga á því að stuðla að auknum viðskiptum á milli landanna með öllum skynsamlegum leiðum. Bæði fyrirtækja og einstaklinga. Ég er til að mynda mjög ánægður að Dunkin' Donuts séu að koma til Íslands þar sem fyrirtækið er með höfuðstöðvar sínar í heimaríki mínu Massachusetts. Sama á við um Carpenter & Company sem ætla að reisa fimm stjörnu hótel við hliðina á Hörpu. Þeir koma einnig frá Massachusetts. Þetta er mjög spennandi verkefni og ánægjulegt að sjá það verða loks að veruleika. Markmiðið mun vera að hótelið og Harpa muni styðja við starfsemi hvors annars og ég er vongóður um að það verði raunin.“

Bandaríkin eiga nú í viðræðum við Evrópusambandið um fríverslun. Má ætla að það sama eigi eftir að standa aðildarríkjum EFTA, líkt og Íslandi, til boða?

„Það kemur auðvitað í ljós hvernig endanlegur fríverslunarsamningur mun líta út. Mér skilst að íslenskum stjórnvöldum hafi verið haldið upplýstum um almennan gang viðræðnanna eftir því sem þær hafa þróast áfram. Það hefur þannig verið mikill vilji til þess að halda Íslendingum upplýstum um stöðu mála. Vonir standa síðan vissulega til þess að þegar endanlegur samningur liggur fyrir fái EFTA-ríkin einnig að njóta góðs af honum. Ég er ekki í neinni aðstöðu til þess að segja til um það að sú verði niðurstaðan en það er líklegt að svo verði.“

Bandaríska sendiráðið.
Bandaríska sendiráðið. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert