Sigurður Einarsson mættur í dómsal

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings sést hér koma í Héraðsdóm …
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings sést hér koma í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Einarsson, fv. stjórnarformaður Kaupþings banka er mættur í réttarsal, en þetta er í fyrsta skipti sem hann mætir á þeim tíu dögum sem aðalmeðferð stóra markaðsmisnotkunarmál Kaupþings hefur staðið yfir. Sigurður var dæmdur í 4,5 árs fangelsi í Al Thani málinu fyrr í vetur og afplánar nú á Kvíabryggju.

Líkt og Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri bankans, gagnrýndi Sigurður bæði rétt sinn sem fanga til að mæta í dómsal og fylgjast með málinu sem og hvernig komið var að því að dæma í Al Thani málinu.

Baðst afsökunar á fjarveru en sagði réttindi sín fótum troðinn

Í ávarpi sínu baðst Sigurður afsökunar á að hafa ekki verið viðstaddur yfirheyrslur í málinu hingað til, en að réttur hans til að vera viðstaddur réttarhöldin hafi verið fótum troðinn. Vísar hann þar væntanlega til þess að fangelsisyfirvöld höfðu gefið út að fangar sem ákærðir væru í málinu myndu vera vistaðir í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.

Sigurður sagðist í dag vera mættur aftur í réttarsalinn vegna brota sem hann hafi ekki framið. Sagðist hann hafa verið sýknaður í héraði í Al Thani málinu þar sem hann hafi sem stjórnarformaður ekki haft neitt umboð sem tengdust ákæruliðum  og því hafi hann ekki getað farið út fyrir neitt umboð.

Sagði hann nú sama saksóknara vera á móti sér sem hefði hlerað síma hans, lýst eftir sér hjá alþjóðalögreglunni Interpol og logið upp á sig.

Al Thani málið óskiljanlegt

Sigurður tók undir með Hreiðari Má, sem ávarpaði réttinn í gær og sagði óskiljanlegt hvað hafi gerst í eftir áfrýjun Al Thani málsins. „Hæstiréttur dæmi mig fyrir allt aðrar forsendur en héraðsdómur,“ sagði Sigurður og bætti við að nú væri Hæstiréttur búinn að afnema í raun að tvö dómsstig væru í landinu þar sem ekki væri hægt að áfrýja Hæstaréttardómi.

Það skiptir ekki máli hver niðurstaða héraðsdóms er, sagði Sigurður, „skrifar Hæstiréttur ekki bara nýja dóma.“

Lýsti sig saklausan

Lýsti hann sig algjörlega saklausan og að hans verkefni fyrir bankann hafi verið mjög takmarkað og vel skilgreint. Hann hafi átt starfsstöð í London og átt að samræma hlutverk í mismunandi löndum, auk þess að sitja í lánanefnd.

Sigurður sagðist þekkja til eigin viðskipta innan bankans, en að hann hafi ekki þekkt starfsemina nákvæmlega né einstaka starfsmenn.  Hann væri að sjá þá flesta nú í fyrsta skipti fyrir dómi.

Í lok ávarpsins sagði Sigurður að að öllu þessu sögðu yrði dómarinn að virða þá skoðun hans að traust hans á dómskerfinu væri ekki til staðar.

Magnús Guðmundsson fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg er í Héraðsdómi …
Magnús Guðmundsson fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg er í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem stóra Kaupþingsmálið er til meðferðar. mbl.is/Árni Sæberg
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, kemur inn í réttarsalinn í …
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, kemur inn í réttarsalinn í morgun. mbl.is/Árni Sæberg
Björn Þorvaldsson saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara og Ingólfur Helgason, …
Björn Þorvaldsson saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara og Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, ásamt lögfræðingum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Aðalmeðferð í stóra Kaupþingsmálinu en níu eru ákærðir fyrir umfangsmikla markaðsmisnotkun árið áður en Kaupþing féll. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert