Vill leggja niður vasapeningakerfið

Hrafnista í Reykjavík.
Hrafnista í Reykjavík. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, vill leggja niður svokallað vasapeningakerfi og auka sjálfræði aldraðra. Hugmyndir hennar um  breytt greiðslufyrirkomulag fólks vegna búsetu á dvalar- og hjúkrunarheimilum sem miða að þessu liggja að mestu fyrir.

Stefnt er að tilraunaverkefni um innleiðingu breytinganna. Eygló kynnti þetta á fundi Landssambands eldri borgara í dag.

Mál Guðrúnar Einarsdóttur, ellilífeyrisþega og öryrkja á níræðisaldri, vakti nokkra athygli í mars á þessu ári. Á blaðamannafundi sem hún hélt á heimili sínu greindi hún frá því að hún ætti ekki rétt á lífeyri þar sem hún hefði dvalist á hjúkrunarheimili í sex mánuði.

Frétt mbl.is: „Fólkið fái til baka allan sinn ellilífeyri“

Hún var með um 177.000 krónur á mánuði í lífeyristekjur en þess í stað átti hún að fá um 53.000 krónur í vasapeninga á mánuði. Afgangurinn færi í vistgjald á hjúkrunarheimilinu. 

Hugmyndir Eyglóar byggjast á því að einstaklingar greiði milliliðalaust fyrir alla þjónustu sem þeir fá á hjúkrunarheimilum, að undanskilinni heilbrigðisþjónustu og annarri umönnun. Greiðslufyrirkomulagið yrði þannig tvíþætt, þar sem annars vegar væru daggjöld ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu og umönnun en einstaklingarnir myndu greiða fyrir almenna framfærslu að öðru leyti.

Að auki er svo gert ráð fyrir húsaleigukostnaði sem tæki mið af stærð og gæðum húsnæðisins en einnig af tekju- og eignastöðu viðkomandi. Samkvæmt þessum hugmyndum er gert ráð fyrir að fólk geti átt rétt á húsaleigubótum, rétt eins og gildir á almennum leigumarkaði.

„Ég bind vonir við að hægt verði að taka upp breytt kerfi áður en langt um líður en til umræðu er að prófa það fyrst sem tilraunaverkefni í ljósi þess að þetta er umtalsverð breyting sem þarf að vanda vel til,“ sagði félags- og húsnæðismálaráðherra í ávarpi sínu.

Frétt mbl.is: Eldri borgarar settir á gaddinn

Guðrún Einarsdóttir liggur ekki á skoðunum sínum.
Guðrún Einarsdóttir liggur ekki á skoðunum sínum. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert