Greiðsluseðlar gjalda ekki sendir út

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ekki eru sendir út greiðsluseðlar vegna ýmissa gjalda sem sýslumenn og tollstjórinn í Reykjavík annast innheimtu á meðan á verkfalli starfsmanna hjá Fjársýslu ríkisins stendur og nýjar kröfur birtast ekki í netbönkum. Í tilkynningu sem sýslumenn og tollstjóri birtu í nýliðnum mánuði kemur fram að þetta hafi ekki áhrif á greiðsluskyldu gjaldenda eða á lögboðna gjalddaga og eindaga sem eru óbreyttir eftir sem áður.

Gjaldendur geti átt von á að verða fyrir óþægindum vegna þessa.

„Ég veit ekki hvort þetta hefur valdið miklum vandræðum ennþá en þetta gæti kannski hægt á innheimtu. Það sjáum við sennilega ekki fyrr en síðar þegar mánaðarleg yfirlit liggja fyrir yfir innheimtuna,“ segir Sigurður Skúli Bergsson, aðstoðartollstjóri hjá embætti Tollstjóra. Embættin hafa bent gjaldendum á að þeir geti ávallt fengið upplýsingar um greiðslustöðu sína og greitt kröfur hjá innheimtumönnum ríkissjóðs eða lagt inn á bankareikninga þeirra.

Meðal gjalda sem sýslumenn og tollstjóri innheimta eru tekjuskattur, eignaskattur, álagt tryggingagjald og sveitarsjóðsgjöld sem tengjast þeim, vörugjöld af ökutækjum, þungaskattur, skipulagsgjald og skattsektir. Þó að þetta hafi ekki áhrif á innheimtu tekjuskatta og útsvars sem dregin eru af launum segir Sigurður það vissulega rétt að hætta sé á að menn gætu gleymt álagningu einhverra gjalda dragist verkfallið á langinn og engar tilkynningar berast í pósti eða heimabanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert